Karlakór bjargaði brúðhjónum

Brúðhjónin voru þakklát kórnum fyrir aðstoðina og létu mynda sig …
Brúðhjónin voru þakklát kórnum fyrir aðstoðina og létu mynda sig með þeim. Ljósmynd/Björn Sighvatsson

Reglulega berast fréttir af björgunarsveitarmönnum sem hafa komið erlendum ferðamönnum til bjargar en sjaldnar berast fréttir af því þegar karlakór tekur að sér starf bjargvættarins, en einn slíkur kom taívönskum brúðhjónum til aðstoðar sem höfðu fest bíl sinn út í kanti. Kórinn tók svo lagið á vettvangi eins og lög gera eflaust ráð fyrir.

„Við vorum að keyra rétt hjá Hellu [fyrir hádegi] og þar voru túristar sem fóru út af. Við sáum bílinn og hjálpuðum þeim upp á veginn,“ segir Björn Sighvatsson, sem er félagi í Karlakórnum Esja, í samtali við mbl.is, en hópurinn var á leið í æfingaferð í Þórsmörk þegar þetta gerðist. 

„Þá kom svo skemmtilega í ljós að konan var í brúðarkjól,“ segir Björn. Fólkið sagðist vera frá Taívan og upplýstu kórinn um að þau væru „Pre-Wedding“ ferð. 

„Það var tekin mynd af okkur með henni og þetta var voða skemmtilegt,“ segir hann ennfremur. 

Skömmu eftir að kórinn var búinn að kveðja parið varð önnur bifreið með asískum ferðamönnum á vegi þeirra, en ferðamennirnir höfðu lent í svipuðum hremmingum og brúðhjónin, þannig að bifreið þeirra  hafnað utan vegar. Kórfélagarnir, sem eru rúmlega 30 talsins, voru ekki lengi að aðstoða þá aftur upp á veg.

„Þetta var smá tilbreyting í ferðalagið,“ segir Björn og bætir við að það hafi eflaust verið ævintýri fyrir ferðamennina að hafa notið aðstoðar kórsins. 

Brúðhjónum bjargað af karlakór.

Posted by Björn Sighvatsson on 13. febrúar 2016
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert