Flokksráð Vinstri grænna vill að Landsbanki Íslands verði rekinn sem samfélagsbanki í eigu hins opinbera og í þágu fólksins í landinu. Segir í ályktun ráðsins að ríkisstjórnin hafi ekki farið leynt með áform sín um að einkavæða banka og fjármálastofnanir í almannaeigu.
Flokksráðið hélt fjölmennan fund á Hallveigarstöðum í dag og afgreiddi fjölda ályktana. Segir í þessari ályktun, um gagnsæi við uppstokkun fjármálakerfisins, að mikilvægt sé að samfélagsleg umræða fari fram „við uppstokkun fjármálakerfisins, hlutverk ríkisins í því og framtíðarskipulag enda um hagsmuni almennings að ræða.“
Þar segir einnig að „Borgunarhneykslið“ sýni skýrt hversu mikilvægt sé að söluferli banka, eignum þeirra og eignarhlutum ríkisins í þeim verði gegnsætt, og að fyllsta jafnræðis sé gætt við það ferli.
„Brýnt er að rannsaka Borgunarmálið til hlítar og tekin verði ábyrgð á því sem þar fór úrskeiðis enda um gríðarlega hagsmuni að ræða er varðar almenning.“
Krefst ráðið þess að fram fari rannsókn á einkavæðingu bankakerfisins árið 2003. Með öllu óboðlegt sé, eftir fall bankakerfisins „og án fullnægjandi rannsóknar á einkavæðingu fjármálakerfisins í aðdraganda Hrunsins, skuli stefnt að annarri einkavæðingu fjármálastofnanna í opinberri eigu.“
Ályktanir flokksráðsins má nálgast á vefsíðu Vinstri grænna.