Auglýsing frá Barnaverndarstofu vakti töluverða athygli í gær en þar var spurt hvort fólk vildi taka inn á heimili sitt barn á aldrinum 13 til 17 ára. Börnin hafa þá komið án fylgdar fullorðinna til Íslands.
Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu, segir að stofnunin hafi aldrei áður auglýst eftir fólki til að taka börn inn á heimili, en auglýsingin birtist bæði í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu í gær.
Á síðasta ári komu til landsins sjö til níu einstaklingar þar sem staðfest þótti að viðkomandi væri yngri en átján ára en sá yngsti var fjórtán.
„Tilgangurinn er að afla fósturheimila til að bjóða þessum börnum upp á. Það er afstaða Barnaverndarstofu að heppilegra sé að vista þessa einstaklinga á heimilum og finna fjölskyldur fyrir þá til að búa hjá, fremur en að setja sérstaka móttökustöð á laggirnar,“ segir Bragi og bætir við að margar ástæður séu fyrir þeirri afstöðu.
„Í fyrsta lagi er dvöl á heimili hagfelldari fyrir þessi börn. Þau njóta þar að öðru jöfnu meira tilfinningalegs atlætis og umönnunar og þá er betur hægt að skynja þeirra einstaklingsbundnu þarfir og veita þeim það sem þau þarfnast.
Svo er á hitt að líta, að þessi börn koma úr öllum áttum, frá mjög ólíkum menningarsvæðum, tala mismunandi tungumál og svo framvegis. Þau eiga því ekki margt sameiginlegt annað en það að hafa verið á flótta. Engar sérstakar knýjandi ástæður eru þannig fyrir því að hafa þau undir sama þaki.“
Bragi segir að árlega komi lítill fjöldi barna til Íslands án fylgdar fullorðinna og þeim hafi þá jafnan verið fundin fósturheimili. Núna hafi hins vegar gengið erfiðlega að finna heimili fyrir þrjú börn sem nýlega eru komin til landsins. Af þeim sökum hafi Barnaverndarstofa gripið til þeirra úrræða að auglýsa eftir heimilum.
Börnin þrjú dvelja nú á móttökustöðinni í Hafnarfirði en þau eiga uppruna sinn að rekja til Afganistan og Albaníu. Bragi segir börnin yfirleitt koma hingað fljúgandi með farþegaflugi frá Norðurlöndunum. Þá hafi þau flest verið á flótta lengi.
„Þetta eru gjarnan hópar ungmenna eða ungmenni sem ferðast með einhverjum sem er eldri, án þess þó að sá hafi nokkra umsjá með þeim sem yngri er. Sumir koma þessa leið á eigin spýtur, það er í raun allur gangur á þessu. Oft hafa einstaklingar komist í svarta vinnu á Norðurlöndunum og þannig safnað sér fyrir fargjaldi. Þetta er eitt af því sem alltaf er kannað sérstaklega.“
Búist er við að komum barna til landsins fjölgi á næstunni.
„Þetta hefur ekki verið ýkja stór hópur en þau hafa aldrei verið jafn mörg og á síðasta ári. Ég held að við verðum að búa okkur undir að þau kunni að vera enn fleiri á þessu ári. Þess vegna viljum við auglýsa núna svo við séum í stakk búin þegar þar að kemur.“
Í auglýsingunni segir að æskilegt sé að fólk hafi reynslu eða þekkingu á málefnum flóttabarna, mismunandi menningu þeirra, trú og hefðum og eða tali tungumál þeirra. Umfram allt segir Bragi þó að verið sé að leita að kærleiksríku fólki.
„Við erum að leita að góðu fólki sem hefur til að bera mannkærleik og hug á að liðsinna börnum sem jafnvel hafa misst fjölskyldur sínar eða heimili, og er reiðubúið að leggja sitt af mörkum. Þekkinguna og fræðsluna getum við svo útvegað.“