Þarf að gera þennan tíma upp

Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.
Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Styrmir Kári

„Ég sá á síðasta kjörtímabili að það var eitthvað mjög skrýtið sem þá fór fram,“ segir Vigdís Hauksdóttir alþingismaður, en hún hefur staðið í nokkrum stórræðum að undanförnu vegna umræðna um skjöl sem afhent hafa verið þinginu vegna einkavæðingar bankanna á árinu 2009.

Vigdís segir gögnin vera af tvennu tagi. Annars vegar séu þar gögn sem séu öllum opinber, og þar á meðal séu þau gögn sem Víglundur Þorsteinsson, fyrrverandi forstjóri BM Vallár, hafi fengið á sínum tíma um störf sérstaks stýrihóps um endurreisn bankakerfisins. „En svo eru það þau gögn sem ég kallaði eftir sem vantaði inn í þau gögn sem Víglundi voru afhent. Þau eru öll bundin trúnaði og eru geymd í læstum skáp sem er bara aðgengilegur þingmönnum á þeim tíma sem skrifstofa þingsins er opin.“

Vigdís segir að hún vilji aflétta þeim trúnaði og að hún hafi farið fram á það við forseta þingsins. „Í þeim gögnum eru upplýsingar sem allir verða að fá að vita hvernig komu til, þegar bankarnir voru afhentir kröfuhöfum á einni nóttu án nokkurs faglegs mats.“

Fyrirtæki voru knésett

Vigdís segir jafnframt að ljóst sé af gögnunum að það hafi verið tekin stefnumarkandi ákvörðun um að rukka heimili og fyrirtæki upp í topp og keyra einhver fyrirtækjanna í gjaldþrot og færa öðrum eignarhald þeirra.

„Lífvænleg fyrirtæki voru knésett og þau rifin af eigendum sínum, skuldahreinsuð og færð í hendur annarra. Þetta er það sem allir vita,“ segir Vigdís. Hún bætir við að fólk hafi á þeim tíma verið það óttaslegið og hrætt við bankakerfið, að það hafi ekki haft þrek til þess að berjast á móti. Enda hafa margir lýst hörkunni og óbilgirninni í samskiptum við nýju bankana. Skuldurum var sundrað og innheimtuaðgerðir voru gerðar á einstaklings-grunni. „En nú eru bjartari tímar og fólk er farið að átta sig á því hvílíkt óréttlæti var á þessu tímabili.“

Vigdís segir fjölmarga hafa hvatt sig áfram í þessari baráttu. Oft sé þar um að ræða einstaklinga sem hafi lent í þessu skuldauppgjöri bankanna og farið illa út úr því. Oft hafi það verið aðilar sem hafi þurft að afhenda fyrirtæki sín, en þegar upp hafi verið staðið hafi eignir þeirra reynst meiri en skuldirnar. „Ég hef alveg séð nokkur dæmi þess að fyrirtæki í tímabundnum vandræðum hafi verið færð öðrum aðilum. Allt saman án útboðs eða upplýstrar umræðu.“

Vigdís segist ekki muna eftir því að það hafi verið rætt á síðasta kjörtímabili að fara með þessi fyrirtæki í opið söluferli af bönkunum. „Það eru hins vegar mörg dæmi um ofurhagnað þessara fyrirtækja og þau hafa margfaldast í verði síðan. Það voru mörg „Borgunarmálin“ á síðasta kjörtímabili,“ segir Vigdís.

Tómar eða hálfar blaðsíður

Vigdís segir að fjármálaráðuneytið beri við persónutrúnaði, þegar hún er spurð um það hvers vegna gögnin séu ekki opinber. Áður hafi ráðuneytið að vísu sagt trúnaðarákvörðunina vera í höndum Alþingis, en hafi síðan dregið í land með það.

Vigdís segir það hins vegar skýrt af sinni hálfu að tryggja verði persónuvernd, áður en gögnin verði opinberuð. „Það er alveg á hreinu að kennitölur og nöfn einstaklinga ætti að fjarlægja úr gögnunum, og þá með áberandi hætti með yfirstrikunum, þannig að það sjáist á hvaða blaðsíðum slíkt er, því það eru vissulega nafnalistar í gögnunum, en ekki þannig að við sjáum bara tómar blaðsíður eða hálfar blaðsíður.“

– Eru dæmi þess í gögnunum?

„Það eru til fylgiskjöl þar sem búið er að afmá allan texta, en svo eru undirskriftir þeirra sem gerðu samningana neðst í hægra horninu.“ Vigdís segir það vera frekar grunsamlegt þar sem venjan sé sú í opinberum gögnum að afmá viðkvæmar upplýsingar með svartri yfirstrikun, þannig að það sjáist glöggt hvar átt hafi verið við textann.

– Þessi gögn eru þá væntanlega til einhvers staðar með þessum texta inni? „Ég ætla rétt að vona að frumritin að öllum þessum gögnum finnist í fjármálaráðuneytinu og að það verði ekki tvísaga um þessar upplýsingar, eins og gerðist varðandi Landsbankasamninginn þar sem ritari nefndarinnar sagði að hann hefði verið að vinna í tveimur skjölum í einu og að þingið hefði fengið rangt skjal, þegar undir liggur um 300 milljarða samningur í erlendum gjaldeyri.“

Fundargerðir finnast ekki

Á meðal þess sem Vigdís óskaði eftir því að fá afhent voru tvær fundargerðir stýrihópsins sem Víglundi höfðu ekki verið afhentar, af fyrsta og þrettánda fundi þess hóps. Hélt Vigdís því fram að þær fundargerðir hefðu verið látnar hverfa, en svar fjármálaráðuneytisins var á þá leið að þær fundargerðir hefðu ekki verið ritaðar. Þykir Vigdísi það fullnægjandi skýring? „Ég legg ekki trúnað á að þær hafi ekki verið skrifaðar, því að í hlutafélagalögum og lögum sem ríkið hefur sett vinnumarkaðnum er það skýrt að þetta er ein af grunnforsendum þess að fundir séu löglegir, að fundargerð sé rituð.“

Vigdís vísar meðal annars í Landsdómsmálið og segir að það sorgarferli hafi meðal annars snúist um skort á fundargerðum. „Þannig að ef við leggjum trúnað á að þessar fundargerðir hafi ekki verið ritaðar, þá er það jafnmikill áfellisdómur yfir ríkinu eins og ef þær hafa verið látnar hverfa.“

Vigdís segir að einhver verði að bera ábyrgð á því að þessar fundargerðir séu ekki til, þar sem á þessum fundum, númer 1 og 13, hafi mjög afdrifaríkar ákvarðanir verið teknar. „Þær bara verða að finnast, þessar fundargerðir, og ef þær finnast ekki, þá verður að gera rannsókn á tölvugrunnum fjármálaráðuneytisins, sambærilega rannsókn eins og gerð var í innanríkisráðuneytinu í kjölfar svokallaðs Lekamáls.“

Engin skipunarbréf gefin út

Vigdís segir einnig athyglisvert að hún hafi beðið um skipunarbréf þeirra sem sátu í stýrihópnum, en ekki fengið. „Ríkinu ber skylda til að gefa út skipunarbréf í jafnmikilvægum nefndum, en ég fékk það svar frá fjármálaráðuneytinu að það hefði aldrei verið útbúið handa þeim aðilum sem sátu í þessum stýrihópi.“

Vigdís segir það alvarlegt mál ef ekki sé gefið út skipunarbréf þar sem skyldur og valdheimildir viðkomandi einstaklinga séu tilgreindar. „Ef slíkt bréf er ekki gefið út, þá geta einstaklingar tekið sér það vald sem þeir vilja. Ef fundargerðirnar eru lesnar er ljóst að það var farið frjálslega með valdheimildir ríkisins í þessum málefnum. Fullkomið valdaframsal átti sér stað í tilfelli löggjafans þar sem undirritaðir voru fjármálagjörningar upp á hundruð milljarða án aðkomu fjárveitingarvaldsins.“ Ríkisendurskoðun gerði alvarlegar athugasemdir við þetta háttalag löngu síðar og var fjárlagaheimildin veitt löngu eftir á.

Vigdís segir að það vanti fleiri gögn. „Það er heill listi af gögnum sem ég fæ ekki afhent, og þá er borið við trúnaði, og að það séu svo viðkvæm gögn að meira að segja þingmenn megi ekki sjá þau.“

Vigdís segir jafnframt að ýmislegt vanti í þau gögn sem þegar hafi verið afhent. „Fundargerðirnar sem Víglundur fékk afhentar enda margar mjög snubbótt, inn í miðjum setningum og þannig.“ Vigdís segir ástandið að vissu leyti verra í trúnaðargögnunum, almennt séð virðist sem búið sé að eiga töluvert við þau.

Kallar á frekari rannsókn

Vigdís segir að gögn málsins kalli á frekari rannsókn á tildrögum þess að bankarnir voru einkavæddir á síðasta kjörtímabili. „Fyrst og fremst legg ég áherslu á að það verði farið í rannsókn á einkavæðingunni hinni síðari, vegna þeirra gagna sem liggja til grundvallar og þeirra upplýsinga sem ég hef, sem eru bundin trúnaði. Það eitt og sér sýnir mér að það verði að rannsaka þessi mál,“ segir Vigdís.

Hún telji hins vegar heillavænlegast, til þess að skapa megi sátt í samfélaginu og stjórnmálunum, að rannsaka einnig fyrri einkavæðinguna einu sinni enn, þar sem það komi reglulega upp í umræðunni að hana þurfi að rannsaka betur.

Vigdís tekur fram að hún sé ekki að tala fyrir rannsóknarnefnd í anda þeirra sem skipaðar voru á síðasta kjörtímabili, sem hafi kostað skattgreiðendur formúur en skilað litlum haldbærum niðurstöðum. „Gögnin liggja að mestu fyrir, það þarf að sækja inn í ráðuneytið örlítið meira af gögnum sem vantar. Ég hef til dæmis ekki enn kallað eftir fundargerðum samræmingarhóps sem var yfir þessum stýrihóp stjórnvalda,“ en Vigdís segir að nokkuð sé á huldu um samsetningu þess hóps, en að líklega hafi hann verið skipaður ráðherrum síðustu ríkisstjórnar svona í stjórnskipulegu tilliti.

Þá telur Vigdís einnig að það þurfi að rannsaka aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að þessum gjörningum. Þá ætti jafnframt að kanna tengslin á milli endurreisnar Landsbankans og Icesave-samninganna og tengslin við Evrópusambandsumsóknina.

„Þetta tímabil í lífi þjóðarinnar verður að gera upp með rannsókn. Að lokum fagna ég því útspili Árna Páls Árnasonar, formanns Samfylkingarinnar, þar sem hann viðurkennir að margt hafi misfarist á síðasta kjörtímabili, og því hlýt ég að álykta að hann komi með okkur í þessa vegferð,“ segir Vigdís að lokum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert