Hviður geta farið upp í allt að 50 metra á sekúndu á morgun í Skagafirði og Eyjafirði og meðalvindur verið á bilinu 30-40 metrar á sekúndu. Gert er ráð fyrir að mikill skafrenningur og blint verði á fjallvegum, sérstaklega norðvestan til. Þetta kemur fram hjá Vegagerðinni.
Í kvöld snjóar á fjallvegunum og slydda og bleytusnjór á láglendi. Hvasst verður sunnan og austanlands fram á nótt, en lægðarmiðjunni er spáð norður yfir vestanvert landið seint í kvöld. Hún dýpkar meira, en áður var spáð. Suðvestan- og vestanáttin verður því harðari í kjölfar hennar. Snemma í fyrramálið 20-25 m/s og með éljum og hita nærri frostmarki á láglendi.
Það er þæfingur og skafrenningur í Þrengslum og snjóþekja og skafrenningur á Sandskeiði og Hellisheiði. Hálka eða hálkublettir eru nokkuð víða á Suðurlandi en flughálka er sumstaðar á útvegum.
Á Vesturlandi eru hálkublettir á Bröttubrekku. Hálkublettir eða hálka er á Snæfellsnesi og sumstaðar éljagangur.
Hálka er víðast hvar á Vestfjörðum en þæfingsfærð, snjóþekja og éljagangur víða á fjallvegum.
Á Norðurlandi er hálka eða hálkublettir og skafrenningur. Snjóþekja og éljagangur er á Öxnadalsheiði. Hálka, snjóþekja og óveður er á Víkurskarði, Mývatnsheiði, Hólasandi og Mývatns- og Möðrudalsöræfum.
Áframhaldandi hálka er á Austur- og Suðausturlandi. Snjóþekja, þæfingsfærð, hálka og óveður er víða á fjallvegum t.a.m. á Vatnsskarði eystra og Fagradal. Ófært er á Fjarðarheiði en lokað er á Oddsskarði. Flughált er á köflum milli Hafnar og Öræfa og sumstaðar óveður með suðausturströndinni.