Sakaði forsætisráðherra um þvætting

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. mbl.is/Styrmir Kári

„Þetta er ekki stefna. Þetta er bara svona til skoðunar. Það á bara að kanna hvort þetta hugsanlega geti verið sniðugt þannig að enn bíðum við eftir fyrsta stefnumálinu frá Pírötum, virðulegi forseti, og sjáum til hvort það kemur fyrir kosningar eða ekki.“

Þetta sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra á Alþingi í dag þar sem þau Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, tókust á um þingsályktun um borgaralaun. Birgitta sagði að einungis væri um að ræða þingsályktun varaþingmanns Pírata en ekki stefnu flokksins. Sigmundur sakaði Birgittu um að vilja ekki kannast við málið og þess í stað vísa ábyrgðinni á varaþingmann þrátt fyrir að vera sjálf einn af flutningsmönnum þess.

„Það er átakanlegt að hlusta á þvættinginn úr munni hæstvirts forsætisráðherra,“ sagði Birgitta. Vísaði hún þvínæst í grein eftir ritstjóra Kjarnans.is um borgaralaun. Borgaralaun tryggðu fólki laun sem misstu störf sín vegna aukinnar vélvæðingar. Stuðning við hugmyndina væri bæði að finna á meðal hægrimanna og vinstrimanna. Sigmundur sagði furðulegt að Birgitta kysi að vitna í ritstjóra vefrits til þess að útskýra eigin þingsályktunartillögu.

„Það er líka rétt sem háttvirtur þingmaður nefnir að bæði hægrimenn og vinstrimenn hafa talað fyrir hugmyndum um borgaralaun eða eitthvað svipað en í báðum tilvikum er það fólk algerlega á jaðrinum. Öfgafrjálshyggjumenn hægra megin eða öfgaanarkistar vinstramegin sem mætast, því þessi pólitíski hringur auðvitað mætist í einum punkti, þar sem öfgahærgimenn og öfgavinstrimenn ná saman um útópískar hugmyndir sem eru algerlega óraunhæfar.“

Birgitta Jónsdóttir
Birgitta Jónsdóttir mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka