Tilfellum fjölónæmra lekandasýkinga fer fjölgandi á Íslandi, en sjúkdómurinn getur valdið ófrjósemi og alvarlegum sýkingum. Yfirlæknir á sýklafræðideild Landspítalans segir að þetta sé mikið áhyggjuefni; hefðbundin sýklalyf dugi ekki til og því smiti fólk með sjúkdóminn lengur en ella.
Þetta kom fram í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins.
Karl G. Kristinsson, prófessor í sýklafræði og yfirlæknir á sýklafræðideild Landspítalans sagði í samtali við RÚV mikið áhyggjuefni að hér á landi fjölgi tilfellum þar sem fólk greinist með mjög ónæma lekandasýkla.
„Það getur þýtt að meðferð takist ekki, allavega ekki í fyrstu skiptin, séu notuð þessi hefðbundnu lyf. Þau virka ekki og þá heldur viðkomandi áfram að vera sýktur og getur dreift henni og læknast ekki. Vandinn er sá að það er að aukast svo mikið ónæmið að þeir eru að verða fjölónæmir líka, eins og E-coli bakterían,“ segir Karl.
Hann segir að trúlega megi rekja fjölgun tilfella hérlendis til illviðráðanlegri lekanda baktería, sem hefðbundin sýklalyf vinni ekki á. Því smiti fólk með sjúkdóminn, sem getur í sumum tilfellum verið einkennalaus, lengur. „Þetta er mikið áhyggjuefni varðandi lekandan, því hann getur valdið alvarlegum sýkingum.“