Tekist á um heilbrigðismálin

mbl.is/Eggert

Talsverð umræða skapaðist við upphaf þingfundar á Alþingi í dag um stöðu heilbrigðiskerfisins. Fimm munnlegar fyrirspurnir sem lagðar voru fyrir ráðherra undir liðnum óundirbúnar fyrirspurnir snerust þannig um málaflokkinn.

Tveimur fyrirspurnanna var beint að Kristjáni Þór Júlíussyni heilbrigðisráðherra og einni að Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra. Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, vísaði í undirskriftasöfnun Kára Stefánssonar, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, um að allt að 11% af vergri landsframleiðslu verði varið til heilbrigðiskerfisins og spurði Kristján hvort ekki væri tími kominn til þess að ráðast í markvissa endurreisn kerfisins.

Kristján sagðist telja að í forgangi væri fjármögnun hjúkrunarheimila, heilsugæslan og lyfjakostnaður. Varðandi undirskriftasöfnunina sagðist Kristján hafa litið svo á að hún endurspegli vilja almennings til þess að hafa heilbrigðiskerfið í sem bestu ástandi hverju sinni. Einhver prósentutala af óræðri stærð væri ekki það sem mestu máli skipti heldur þessi ríki vilji sem væri fyrir hendi. Sagðist hann sammála því að gera mætti betur og unnið væri að því. Ekki mætti gleyma því hins vegar sem vel væri gert.

Kristján fékk einnig fyrirspurn um heilbrigðismálin frá Ólínu Þorvarðardóttur, þingmanni Samfylkingarinnar. Sagði hann að það tæki tíma að sníða af ágalla íslenska heilbrigðiskerfisins og unnið væri að því. Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, beindi fyrirspurn sinni að Sigmundi Davíð og spurði um aukin framlög til heilbrigðismála.

Forsætisráðherra sagði að ríkisstjórnin héldi áfram að leggja aukið fé til málaflokksins. Til að mynda með 19 milljarða króna viðbót á þessu ári sem væri annað en gert hefði verið á síðasta kjörtímabili þegar skorið hafi verið niður um 30 milljarða króna. Sagði hann ánægjulegt að skynja stuðning almennings við aukna uppbyggingu í heilbrigðiskerfinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert