Talsverða athygli vakti, þegar David Cameron forsætisráðherra Bretlands ritaði nafn sitt í gestabók Alþingis í heimsókn sinni til Íslands í október, að breski fáninn sneri öfugt á lítilli fánastöng á borðinu sem ráðherrann notaði til þess að skrá nafn sitt. Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, harmaði mistökin í samtali við mbl.is. Íslendingar vildu að sjálfsögðu sýna fulltrúum erlendra þjóða sem kæmu til landsins fulla virðingu.
Frétt mbl.is: Breski fáninn sneri öfugt
Fleiri eiga það til að klikka á því að flagga breska fánanum með réttum hætti. Þannig birtir breski blaðamaðurinn John Stevens færslu á Twitter-síðu sína í dag af breska fánanum fyrir utan Evrópuþingið í Strasbourg þar sem hann snýr öfugt, en Cameron heimsótti þingið í dag og fundaði með forseta þess og helstu embættismönnum. Miðað við einfalda leit á netinu er um talsvert algeng mistök er að ræða. Ekki síst í Bretlandi sjálfu.
Union flag flown upside down at European Parliament for Cameron visit... Traditionally a distress signal pic.twitter.com/0lfYEHWM0H
— John Stevens (@johnestevens) February 16, 2016