Hvar eru íbúðirnar?

Framkvæmdir áttu að hefjast við íbúðaturn á Höfðatorgi 2015 og …
Framkvæmdir áttu að hefjast við íbúðaturn á Höfðatorgi 2015 og klárast 2016 en nú eru verklok áætluð í árslok 2017/ársbyrjun 2018. mbl.is/Styrmir Kári

Uppbygging á fjölda þéttingarreita í Reykjavík hefur tafist og verður framboð nýrra íbúða í borginni á næstu árum því minna en útlit var fyrir. Munu tafirnar að óbreyttu viðhalda eftirspurnarþrýstingi á fasteignamarkaði í Reykjavíkurborg.

Lítið hefur farið fyrir framkvæmdum við Kirkjusand
Lítið hefur farið fyrir framkvæmdum við Kirkjusand Höfundur er ASK arkitektar

Hér til hliðar má sjá dæmi um hvernig upphafleg áform á mörgum reitum hafa ekki gengið eftir. Skal tekið fram að uppbygging í Laugarnesinu, á svonefndum Kassagerðarreit, er á hugmyndastigi. Þá ber að hafa í huga að margt getur orðið til tafar við framkvæmdir af þessu tagi, til dæmis athugasemdir nágranna.

Samtals eiga að rísa u.þ.b. 2.500 til 2.750 íbúðir á þessum reitum.

Samkvæmt heimildum blaðsins í verktakageiranum skýrast tafirnar meðal annars af því hversu þungt skipulagsferlið er í vöfum. Afgreiðsluferlið hjá umhverfis- og skipulagssviði þykir tímafrekt og hafa athugasemdir við atriði á borð við fyrirkomulag sorphirðu tafið stór verkefni. Jafnframt sé tímafrekara og flóknara að byggja á reitum þar sem byggðin er gróin og nauðsynlegt er að rífa byggingar og finna atvinnustarfsemi nýjan stað.

Tafir á þéttingu byggðar í Reykjavík
Tafir á þéttingu byggðar í Reykjavík Grafíkdeild Morgunblaðsins

Tveggja ára töf í Einholti

Á Einholtsreit eru að rísa um 200 Búsetaíbúðir. Afhending íbúða í 1. áfanga mun fara fram um tveimur árum síðar en rætt var um í upphafi.

Haustið 2013 boðaði Dagur B. Eggertsson, þáv. formaður borgarráðs og núverandi borgarstjóri, að nýtt hverfi í Vesturbugt, vestur af Slippnum við Reykjavíkurhöfn, yrði tilbúið 2016 til 2017. Fram kom í kynningu borgarstjóra í nóvember sl. að 170 íbúðir yrðu í hverfinu. Lokahönnun þess er ekki lokið.

Framkvæmdir við seinni áfanga við Mánatún áttu að standa yfir …
Framkvæmdir við seinni áfanga við Mánatún áttu að standa yfir 2015/2016 en nú stendur til að honum ljúki 2017. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Miðað var við um 200 íbúðir í Laugarnesinu þegar Morgunblaðið ræddi við Gísla Gíslastjóra, hafnarstjóra Faxaflóahafna, í október 2014. Verkefnið er á hugmyndastigi.

Næst kemur Ingólfstorg en á kynningarfundi borgaryfirvalda í nóvember 2014 var rætt um 19 íbúðir. Hönnun húsanna er hluti af svonefndum Landssímareit sem nú er í lokahönnun. Óvíst er hvort íbúðirnar verða tilbúnar fyrir árslok 2017.

Fyrstu íbúðir í Vogabyggð áttu að koma í sölu árið …
Fyrstu íbúðir í Vogabyggð áttu að koma í sölu árið 2016 en þar er verkefnið ekki hafið. Mynd/Reykjavík

Austurhöfn er meðal stórra verkefna sem hafa tafist. Annars vegar er um að ræða Austurhöfn, reiti 1 og 2, eða svonefnt Hafnartorg. Framkvæmdir við 80 íbúðir og skrifstofu- og verslunarhúsnæði á reitnum áttu að hefjast í fyrrahaust en hafa tafist vegna umdeilds hafnargarðs og í kjölfar athugasemda Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, forsætisráðherra, við hönnun mannvirkja á Hafnartorgi. Viðræður standa yfir milli aðila um framhaldið.

Hins vegar er um að ræða íbúðir á reit 5 við Austurhöfn. Áætlað var í kynningu borgaryfirvalda í nóvember 2014 að uppbygging 70-110 íbúða á reitnum gæti hafist 2015.

Samkvæmt upplýsingum frá Þingvangi er uppbygging á Brynjureit að hefjast og áætlar Pálmar Harðarson, framkvæmdastjóri félagsins, að verklok verði að óbreyttu haustið 2017. Þar verða byggðar 77 íbúðir. Áætlaði borgin í kynningu haustið 2014 að uppbyggingin hæfist 2015.

Tölvuteikningar af íbúðum við Einholt/Þverholt. Stefnt var að því að …
Tölvuteikningar af íbúðum við Einholt/Þverholt. Stefnt var að því að afhenda fyrstu íbúðirnar vorið 2014 en fyrstu verða væntanlega afhentar í ár og þær síðustu árið 2018.

Höfðatorgið á eftir áætlun

Uppbygging íbúðaturns á Höfðatorgi hefur einnig tafist. Borgin áætlaði haustið 2014 að verkinu lyki 2016 en nú er útlit fyrir að turninn verði tilbúinn í árslok 2017, eða í ársbyrjun 2018. Þar verða 94 íbúðir.

Það sama gildir um Mánatúnið, skammt frá Höfðatorgi, að þar er uppbyggingin hægari en borgin áætlaði um haustið 2014. Þar á eftir að reisa 89 íbúðir og áætlaði einn arkitekta verksins að þær yrðu tilbúnar 2017. Borgin áætlaði hins vegar í kynningu sinni haustið 2014 að íbúðirnar yrðu tilbúnar á þessu ári.

Þá eru framkvæmdir á Sigtúnsreit ekki hafnar en haustið 2014 áætlaði borgin að þær myndu hefjast árið 2015. Þar verða um 100 íbúðir.

Tafir hafa orðið á uppbyggingu Vogabyggðar en þar er eitt stærsta þéttingarverkefnið. Áformað er að byggja 1.100-1.300 íbúðir á svæðinu. Uppbygging á Kirkjusandsreit hefur líka tafist en þar verða 300 íbúðir.

Þessi listi er ekki tæmandi og er uppbygging íbúða á Hlíðarenda meðal verkefna sem hér er sleppt.

Tillögur að þéttingu byggðar í Vesturbugt. Hefja átti framkvæmdir 2014 …
Tillögur að þéttingu byggðar í Vesturbugt. Hefja átti framkvæmdir 2014 en staðan í dag er sú að verkefnið er ekki hafið.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert