Vill að stjórn Landsbankans víki

Bjarkey Gunnarsdóttir, þingmaður VG.
Bjarkey Gunnarsdóttir, þingmaður VG. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Dag eftir dag er okkur boðið upp á farsa, farsa í boði Landsbankans og Borgunar. Það er ekki boðlegt hvernig þessir aðildar hegða sér og koma fram. Að mínu viti eiga bæði stjórn og bankastjóri að víkja. Ég tel líka að stjórn Borgunar komist ekki undan því að takast á við sinn þátt málsins. Það má vel vera að þessi gjörningur sé löglegur en hann er algerlega siðlaus gagnvart íslensku þjóðinni sem ég tel hafa orðið af miklum fjármunum í sameiginlega sjóði.“

Þetta sagði Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, á Alþingi í dag í umræðum um störf þingsins. „Við erum að tala um traust og trúverðugleika og við erum að tala um að við erum komin með í fangið banka sem ég hef miklar áhyggjur af að fari í gamalkunnugan farveg. Við lesum líka í dag um milljarðabónusgreiðslur sem núverandi og fyrrverandi starfsmenn íslenska eignaumsýslufélagsins ALMC, þ.e. gamla Straums–Burðaráss, fá upp í hendurnar. Þar er viðhorf manna að þetta sé bara allt hið besta mál og eðlilegt því að í þjóðfélaginu sé uppi allt önnur staða en rétt eftir hrun.“

Bjarkey benti á að þarna væru á ferðinni verulega háar greiðslur, milljarðar. „Við erum að fara aftur til fyrirhrunsáranna. Það er enginn lærdómur, virðulegi forseti. Finnst okkur eitthvað skrýtið að stórum hluta landsmanna blöskri hvernig þetta er og hafi enga tiltrú á fjármálakerfinu?“ Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Framsóknarflokksins, tók í sama streng og sagði málið farið að snúast um mun meira en söluna á Borgun. Það snerist um traust og trúverðugleika Landsbankans sjálfs.

„Það þarf að koma í veg fyrir að Landsbankinn verði fyrir tjóni og að virði hans rýrni út af þessu máli. Það þarf einfaldlega að taka þannig til hendi að Alþingi taki þetta mál til gaumgæfilegrar athugunar og að yfirstjórn Landsbankans víki.“

Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Framsóknarflokksins.
Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert