Tæplega 3.500 manns hafa „líkað“ við Facebook síðuna Dagbjartur-félag gegn einelti sem stofnuð var á dögunum. Markmið félagsins er að berjast gegn einelti og taka virkan þátt í umræðunni. Félagið heitir eftir Dagbjarti Heiðari Arnarssyni sem féll fyrir eigin hendi árið 2011, þá aðeins ellefu ára gamall. Dagbjartur hafði orðið fyrir grófu einelti lengi og hefur það verið tengt við ákvörðun hans um að taka eigið líf svo ungur að aldri.
„Það er alveg klárt mál af okkar hálfu að Dagbjartur lést af völdum eineltis,“ segir Rúnar Sigurður Birgisson, einn stofnandi félagsins. Hann segir félagið hafa orðið til eftir að hann fór að ræða um alvarleika eineltis við félaga sína, þá Jakob S. Jónsson og Gunnar Rúnarsson. „Við ákváðum að hella okkur út í stofnun þessa félags og vildum geta stofnað það 15. febrúar, á fæðingardegi Dagbjarts sem var í gær. Það var skyndiákvörðun að stofna félagið á Facebook en við ákváðum af hógværð að félagið myndi teljast formlega stofnað eftir 200 „læk“. Það tók víst innan við þrjú korter að ná upp í það,“ segir Rúnar. „Maður trúir þessu varla.“
Í stjórn félagsins eru þau Rúnar, Jakob, Gunnar og Hildur Jakobína Gísladóttir. Afi Dagbjarts, Emil Karlson er einnig í félaginu.
„Ég vil samt taka fram að við erum ekki að finna upp hjólið með stofnun þessa félags,“ segir Rúnar. „Við erum fyrst og fremst grasrótarsamtök og við ætlum að reyna að vera áberandi í umræðunni.“ Hann segir tilganginn með því að nefna félagið Dagbjart tvíþætt. „Það er bæði til að heiðra Dagbjart Heiðar og að bregða birtu á eineltisvandann sem er á öllum stigum og flæðir víða, því miður.“
Rúnar segir einelti gífurlega alvarlegt mál. „Ég hef sjálfur heyrt í svo mörgum sem eiga við sárt að binda vegna eineltis og ég veit um fólk sem ber þess merki utan á sér að það hafi verið lagt í einelti, með skjálfta og þess háttar. Við heyrum á fólki að það hefur miklar áhyggjur af þessu enda er þetta stórt heilbrigðisvandamál.“
Hann segir að markmið félagsins sé einnig til að fá fólk til að hugsa sig um um alvarleika eineltis. „Hver sál sem okkur tekst að bjarga, hvort sem það er gerandi, þolandi eða aðstandandi, þá er það vel,“ segir Rúnar.
Aðalfundur í félaginu verður haldinn í næsta mánuði og þá verða lagðar línurnar þegar það kemur að starfseminni. Að sögn Rúnars eru alltaf að berast nýjar hugmyndir í púkkið og hafa fjölmargir haft samband. „Ég get varla lýst þessu með orðum. Það er með ólíkindum hversu margir vilja styðja félagið,“ segir Rúnar og bætir við að það sé tvímælalaust vilji í samfélaginu til þess að stöðva einelti.
„Einelti kemur við svo marga. Við verðum að taka afstöðu gegn þessu. Það er nóg af öðrum vandamálum í nútímasamfélagi. Þetta er bara af hinu illa,“ segir Rúnar.