Tólf ára ýtt út á Hverfisgötu

Frá Hverfisgötu. Dagný er þakklát fyrir það að ekki varð …
Frá Hverfisgötu. Dagný er þakklát fyrir það að ekki varð slys þegar að syni hennar var hrint út á götuna. mbl.is/Árni Sæberg

Tólf ára dreng var ýtt út á Hverfisgötu í síðasta mánuði af hópi drengja sem hafa lagt hann í einelti í mörg ár. Drengurinn var í skólaferðalagi með bekk sínum í Fellaskóla í Reykjavík þegar honum var ýtt. Hált og blautt var á götunni og er móðir drengsins þakklát fyrir að ekki varð slys. Hún er þó einnig vonsvikin yfir því að kennarar sem voru með börnunum segist ekki hafa séð neitt og að svo virðist sem erfitt sé fyrir skólann að bregðast við því einelti sem hafi fengið að lifa í skólanum í mörg ár.

„Þetta er margra ára saga, þetta er ekkert að byrja núna,“ segir Dagný Sif Kristinsdóttir í samtali við mbl.is en í haust tóku við nýir skólastjórnendur í Fellaskóla. Hún segir að skólastjórnendur segi henni að helsti gerandinn í eineltinu sé í stöðugu ferli en þrátt fyrir það sjái hún engar breytingar. „Þetta er sami drengurinn sem er búinn að vera að níðast á syni mínum í öll þessi ár. Manni er sagt að þetta sé í ferli en það breytist ekkert, heldur bara versnar.“

Eins og starfsfólkið sé orðið meðvirkt

Í síðasta mánuði sagði mbl.is frá sögu ungs drengs í sama skóla sem hefur verið lagður í einelti af sama hópi drengja í mörg ár. Sá er með einhverfu og hefur eineltið haft gífurlega slæm áhrif á hann og er hann meira og minna heima alla daga af ótta við gerendurna í málinu. Að sögn Dagnýjar er sonur hennar að lenda í sama hóp og er sami drengurinn forsprakkinn.

Fyrri frétt mbl.is: Eitt sinn stríðni, nú ofbeldi

Dagný segir að svo virðist sem starfsfólk skólans sé orðið meðvirkt gagnvart gerandanum og að það sé eins og hann komist upp með allt. „Alltaf þegar eitthvað gerist sér starfsfólkið ekki neitt og kannast ekki við neitt. Ég held að þessi strákur sé undir einhverri vernd, það getur ekkert annað verið.“

Tók barnið úr skólanum í tvö ár

Sonur Dagnýjar hefur orðið fyrir eineltinu eins og fyrr segir í mörg ár, en hann er nú í 7. bekk. Fyrir nokkrum árum prófaði Dagný að taka son sinn úr skólanum og færa í einkaskóla, þar sem hann var við nám í tvö ár. Tók hún þá ákvörðun eftir að fyrrnefndur gerandi skaut sippubandi í barkakýli sonar hennar. Hann hefur einnig klemmt putta á syni Dagnýjar í hurð í skólanum.

„Þá var ég nýbúin að fara heim til hans og reyna að ræða við pabba hans um þetta. Það er það sem ég geri alltaf, fer heim til þeirra og reyni að ræða við þá, en það er greinilega ekki að virka. Ég hef beðið drenginn um að leika ekki við barnið mitt, ekki tala við barnið mitt, og bara vera ekki nálægt því,“ segir Dagný. Hún segist ekki ætla að gefa sig í þessu. „Foreldrarnir vilja ekkert kannast við það að hann sé að leggja í einelti.“

Hún bætir þó við að öll börn geri eitthvað af sér. „Minn er enginn engill sem gerir aldrei neitt af sér, ég veit það vel,“ segir Dagný og bætir við að hann sé bæði hvatvís og ofvirkur. „En það er allt annað þegar þetta er orðið svona gróft.“

Dagný segir son sinn eiga sína vini í hverfinu og …
Dagný segir son sinn eiga sína vini í hverfinu og vill þess vegna ekki senda hann í annan skóla. Myndin tengist fréttinni ekki beint. mbl.is/Rax / Ragnar Axelsson

„Þetta er orðið gróft ofbeldi“

Sonur Dagnýjar hefur einnig verið kýldur af forsprakkanum á meðan annar drengur hélt höndum hans fyrir aftan bak. „Þetta er orðið gróft ofbeldi,“ segir hún og bætir við að hún hafi fengið nóg þegar syni hennar var hrint út á umferðargötu. „Ég komst líka að því nýlega að hann og tveir aðrir voru læstir inn í einhverri kompu í leikfimissalnum í tuttugu mínútur. Hvað er eiginlega í gangi?“

Dagný segir einelti hafa áhrif á andlega líðan sonar hennar. Hann eigi þó sína góðu daga inni á milli enda eigi hann sinn vinahóp í skólanum. „Þetta er mjög misjafnt en það er yfirleitt erfitt að koma honum fram úr á morgnana og mér finnst þetta fara versnandi. Oft vill hann ekki mæta og ég er kannski tvo tíma að koma honum í skólann. En stundum þarf ég bara að hringja og láta vita að hann sé ekki að koma.“

Fær skapköst og er leiður

Að sögn Dagnýjar leið syni hennar mjög illa daginn eftir atvikið á Hverfisgötu og fór hann ekki í skólann daginn eftir. Hún segir jafnframt að hann sé núna farinn að fá skapköst og þá verði hún einnig vör við aukinn leiða hjá syni sínum og tengi það við eineltið. „Þeir vinirnir eru ekkert mikið úti að leika sér út af þessu, þeir eru bara heima hvor hjá öðrum,“ segir Dagný.

Hún segir það ekki til skoðunar að taka son sinn aftur úr skólanum. „Hann á þar sína vini. Ég tók hann úr skólanum í tvö ár, sem var bæði erfitt og kostnaðarsamt. Hann vildi samt alltaf fara aftur í sinn gamla skóla út af vinunum. Svo er það auðvitað bara óréttlátt að þolendur þurfi alltaf að víkja. Það skiptir ekki máli hvort um er að ræða fullorðinn mann eða barn.“

Dagný nefnir tvo aðra drengi sem hafi orðið illa út úr einelti í skólanum og segir hennar dreng ekki eins langt leiddan. „En það eru tvö börn þarna á brúninni og þau hafa ekkert tíma,“ segir hún og nefnir í því samhengi drenginn í fyrri frétt mbl.is. „Hvoru megin af brúninni fara þeir?“ spyr hún.

Gerandinn þarf augljóslega hjálp

Dagný leggur áherslu á að gerandinn í þessu máli þurfi augljóslega hjálp. „Þetta barn sem er að níðast á öðrum þarf bara hjálp, það er eitthvað að. Þegar svona margir vilja ekki mæta í skólann út af honum og þessum hópi sem hann stjórnar þarf að skoða hlutina eitthvað betur og það þarf að gera það strax. Það er ekki hægt að draga málin svona,“ segir hún.

Segir hún að með atvikinu á Hverfisgötu hafi hún og aðrir foreldrar fengið nóg og finnist henni alltaf eins og verið sé að þagga niður eineltismál í skólanum. „Það verður umræða um þetta í smá stund og svo á fólk bara til með að gleyma þessu strax.“

Hún segir eineltið hafa byrjað sem stríðni en vera nú orðið gróft ofbeldi. „Ég sætti mig ekki við þetta lengur, það er auðvitað full langt gengið þegar það er verið að henda barninu mínu út á umferðargötu.“

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert