Verður 9.000 fermetrum stærri

Stækkun suðurbyggingar til vesturs.
Stækkun suðurbyggingar til vesturs. Mynd/Isavia

Til að mæta stórauknum straumi ferðamanna til landsins eru ferns konar stórar framkvæmdir í gangi vegna stækkunar Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Í sumar verður flugstöðin um 9 þúsund fermetrum stærri en hún var í byrjun sumars 2015.

„Þetta gengur allt saman mjög vel og er samkvæmt áætlun. Það hefur verið mikill framkvæmdahraði hjá verktökunum,“ segir Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Isavia.

Stækkun suðurbyggingar til vesturs

Fyrsta skóflustunga var tekin 20. júní 2014. Um er að ræða 5.000 fermetra byggingu sem bætir við sex nýjum rútuhliðum, svokallaða þriðju landa leit sem er vopnaleit fyrir farþega sem koma frá löndum þar sem er ekki samningur um vopnaleit. Þeir þurfa því að fara í gegnum leit við lendingu, samkvæmt upplýsingum frá Isavia. Að auki stækkar almennt svæði fyrir skiptifarþega í suðurbyggingu og einnig salerni. Ístak annast framkvæmdirnar. 


Stækkun á farangursflokkunarsal

Framkvæmdir vegna 3.000 fermetra stækkunar á farangursflokkunarsal hófust í lok síðasta árs. Tilgangurinn er meðal annars sá að flugvöllurinn geti tekið á móti breiðþotum sem notast við farangursgáma. Fyrsti áfangi verður tekinn í notkun í sumar og verður verkefnið fullklárað um áramót. Ístak annast framkvæmirnar. 

Stækkun á komusal

Komusalur var stækkaður um rúma 800 fermetra á síðasta ári og verður stækkaður um aðra 800 fermetra í ár. Töskufæriband var lengt og svæðið stækkað bæði innan við og utan við tollgæsluna. Væntanlega verður salurinn tilbúinn í ágúst. ÍAV sér um framkvæmdirnar. 

Stækkun suðurbyggingar til norðurs.
Stækkun suðurbyggingar til norðurs. Mynd/Isavia

Stækkun suðurbyggingar til norðurs

Hafnar eru framkvæmdir við stækkun suðurbyggingar til norðurs. Byggingin verður 7.000 fermetrar á þremur hæðum.

Frétt mbl.is: Vinna við stækkun flugstöðvarinnar hefst í janúar 

Stækkun á landamærasal mun tvöfalda afköst yfir landamærin til að mæta fjölgun farþega á síðustu árum. Sér í lagi fjölgun á skiptifarþegum og umferð frá Norður-Ameríku og Bretlandi auk þess sem verslunar- og veitingasvæði á 1. hæð verður mun stærra með biðsvæði fyrir rúmlega 1.000 farþega til viðbótar við núverandi rými. Einnig er verið að skoða kosti þess að stækka og fjölga biðstofum á flugvellinum. Stækkunin, sem Ístak framkvæmir, verður tekin í notkun árið 2017.

Stækkun suðurbyggingar til norðurs.
Stækkun suðurbyggingar til norðurs. Mynd/Isavia

Þróunaráætlun varðandi frekari stækkun flugstöðvarinnar

Fasi 1 – Afkastageta miðað við núverandi farþegadreifingu: 8.5 milljón farþegar, 60.000 flughreyfingar. Tilbúið 2021-2022

Fasi 2 – Afkastageta miðað við núverandi farþegadreifingu: 10,6 milljón farþegar, 65.000 flughreyfingar, tilbúið 2026-2027

Fasi 3 – Afkastageta miðað við núverandi farþegadreifingu: 13,8 milljón farþegar, 86.000 flughreyfingar, tilbúið 2032

Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Flugstöð Leifs Eiríkssonar. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Hækkun bílastæðagjalds ekki endurskoðuð

Stækkun bílastæða við flugstöðina mun kosta 1,5 milljarða króna á þessu ári og til að mæta þeim kostnaði hefur verið ákveðið að hækka bílastæðagjöld um 30 til 117%. Breytingin tekur gildi 1. apríl.

Þrátt fyrir að hækkunin hafi verið gagnrýnd, m.a. af Neytendasamtökunum, segir Guðni að ákvörðunin verði ekki endurskoðuð. „Þetta er eitthvað sem við teljum okkur þurfa að gera, enda eru miklar framkvæmdir framundan á þessum bílastæðahluta,“ segir hann.

Frétt mbl.is: Sérstaklega slæmt í ljósi einokunarstöðu

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka