Hafi sig hæga um hagsmuni þjóðarinnar

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. mbl.is/Styrmir Kári

„Vegna vaxandi umræðu um sölu eigna ríkisins er rétt að minna á að núverandi ríkisstjórn hefur ekki staðið fyrir sölu nokkurrar einustu eignar. Það eru hins vegar engin dæmi um annað eins framsal eigna til ríkisins og átt hefur sér stað að undanförnu.“

Þetta skrifar Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra á Facebook-síðu sinni og bætir við að þvert á móti hafi eignir verið afhentar eða framseldar til ríkisins upp á hundruð milljarða króna á undanförnum vikum. Tekjufærslan í fjárlögum þessa árs sé um 350 milljarðar króna. Vísar hann þar til svonefndra stöðugleikaframlaga þrotabúa föllnu bankanna í tengslum við aðgerðir stjórnvölda til þess að afnema fjármagnshöftin.

Bjarni skýtur því næst á síðustu ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs. „Þeir sem afhentu kröfuhöfum yfirráð bankanna og sögðu Íslendinga þurfa að ganga í ESB og taka evrulán til að leysa þann hnút og lyfta gjaldeyrishöftum í framhaldinu ættu að gera þá sorgarsögu almennilega upp en hafa sig í millitíðinni hæga í yfirlýsingum um það hvernig best er haldið á hagsmunum landsmanna.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert