Tveir umbjóðendur Ragnars Aðalsteinssonar, hælisleitendur frá Ghana og Nígeríu verða fluttir úr landi í nótt en þeir hafa dvalið hér á landi í fjögur ár. Mönnunum var tilkynnt þetta í gærmorgun en þeir eru báðir með atvinnu- og dvalarleyfi hér á landi og í fullu starfi. Í heildina verða þrír hælisleitendur fluttir úr landi í nótt.
Ólöf Nordal innanríkisráðherra sagði á Alþingi í byrjun október að þeir yrðu ekki sendir til Ítalíu fyrr en búið væri að leggja mat á stöðu þeirra. Mál mannanna voru ekki tekin til efnislegrar meðferðar hér á landi.
Einn mannanna þriggja er samkynhneigður og hafa Samtökin 78 fjallað um mál hans.
Frétt mbl.is: Mótmæli á Bollagötu í nótt
Mennirnir fengu báðir símtal á mánudag þar sem þeim var gert að mæta til lögreglu morguninn eftir. Þar var þeim tilkynnt að þeir yrðu fluttir úr landi aðfaranótt fimmtudags.
Ragnar segir að Útlendingastofnun hafi sent bréf til lögreglunnar þann 5. febrúar sl. og falið henni að vísa mönnunum úr landi. Rúm vika leið aftur á móti þangað til að mennirnir fengu símtal og fengu þeir afar skamman fyrirvara til að ganga frá sínum málum hér á landi, segja upp vinnu og leiguhúsnæði og kveðja vini.
Ragnar segir að með þessum vinnubrögðum, með því að tilkynna mönnunum þetta með svo skömmum fyrirvara, hafi lögregla ekki gætt meðalhófsreglunnar. „Ef þeir héldu að þetta væru menn sem ætluðu að stinga af eða fremja glæpi gæti verið ástæða til að hegða sér svona,“ segir Ragnar og bætir við að saga mannanna gefi ekki til kynna að svo sé.
Ragnar segir endursendinguna byggja á reglum Evrópusambandsins. „Umbjóðendur mínir höfðu verið á Ítalíu og komu þaðan til Íslands. Þeirra staða er sú að þeir létu reyna á réttindi sín fyrir stjórnvöldum og síðan fyrir dómstólum og þeir fengu ekki viðurkenningu á því að það ætti að fjalla um mál þeirra á Íslandi efnislega,“ segir hann.
„Í framhaldinu tilkynnti ráðuneytið mér að þeir yrðu ekki fluttir úr landi að svo stöddu og reyndar sagði ráðherra það líka á þingi. Ég fór fram á að málið yrði endurskoðað og endurupptekið og þeir fengju dvalarleyfi af mannúðarástæðum,“ segir Ragnar.
Sendi hann beiðnina bæði til innanríkisráðuneytisins og Útlendingastofnunar en segist hann ekki hafa fengið nein svör. „Þetta er bara stefna stjórnvalda, að losna við sem flesta útlendinga.“
Munt þú aðhafast eitthvað frekar í þessu máli?
„Ég hef verið að reyna að hafa áhrif á stjórnvöld alveg til síðustu sekúndu. Stjórnvöld hafa reynt að draga eins og þau geta að svara þangað til að dagurinn er á enda kominn,“ segir Ragnar og á þar við Útlendingastofnun og innanríkisráðuneytið.
Hvað bíður þeirra á Ítalíu?
„Gatan og öskutunnurnar,“ segir Ragnar. „Ég sendi ráðuneytinu upplýsingar um ástandið á Ítalíu til þess að það og Útlendingastofnun gætu ekki borið fyrir sig að ástandið væri gott á Ítalíu. Það eru upplýsingar frá Læknum án landamæra sem gáfust upp á Ítalíu með starfsemi sína að hluta til vegna ástandsins og skipulagsleysis.“
Frétt mbl.is: Verða ekki sendir aftur til Ítalíu
Frétt mbl.is: Harma niðurstöðu íslensks réttarkerfis
Frétt mbl.is: Senda nígerískan hælisleitanda úr landi