14 ára hent út úr strætó á þjóðvegi

Skapti Hallgrímsson

Agnes Halla Eggertsdóttir, 14 ára nemandi við grunnskólann á Eyrarbakka var á leiðinni með strætó milli Eyrarbakka og Selfoss um sjöleytið í gærkvöldi þegar strætóbílstjórinn stöðvaði vagninn og krafðist þess að hún yfirgæfi vagninn sökum fíflaláta.

„Ég fæ símtal frá dóttur minni sem er þá úti á miðjum vegi í myrkri, þoku og hálku. Henni hafði verið hent út fyrir að standa upp og labba á milli sæta,“ segir Sædís Ósk Harðardóttir, móðir Agnesar Höllu.

Sædís bað dóttur sína um að lýsa atvikinu nánar fyrir sér og var furðu lostin á viðbrögðum vagnstjórans. Sædís tjáði sig um málið á Facebook og sagði meðal annars:

„Mér finnst það grafalvarlegt að henda 14 ára barni út úr strætó á miðjum þjóðvegi. Sama hver ástæðan er þá er það algjörlega ólíðandi. Séu krakkar með læti í vagninum á að tala við þau á áfangastað, jafnvel banna þeim að koma með einhverjar ferðir, hafa samband heim og ef þau láta engan veginn segjast þá bara hringja eftir aðstoð en ekki reka börn út á þjóðveginn hvort sem er í myrkri, þoku, hálku og snjó eða bara um hábjartan dag.“

Agnesi Höllu var mjög brugðið og var orðið ansi kalt þegar faðir hennar sótti hana. „Hún var mjög sjokkeruð og fékk hálfgert kvíðakast,“ segir Sædís, sem hafði strax samband við Strætó og ræddi við þjónustufulltrúa sem síðan hafði samband við vagnstjórann.

„Konan í þjónustuverinu sagði mér að kvöldið áður hefði verið stelpa í strætó sem hefði ekki látið segjast og flakkað um í vagninum og bílstjórinn hafi talið að um dóttur mína væri að ræða. Hún var hins vegar ekki í vagninum á þriðjudagskvöldið. Þetta finnst mér líka alvarlegt, ef dóttir mín er ekki eina barnið sem hann er að henda út úr vagninum á þjóðvegi,“ segir Sædís.

Mæðgurnar Sædís og Agnes Halla. Agnes var á leið til …
Mæðgurnar Sædís og Agnes Halla. Agnes var á leið til Selfoss frá Eyrarbakka í gærkvöldi þegar vagnstjórinn bað hana að yfirgefa vagninn á miðjum þjóðvegi vegna fiflaláta. Agnes var hins vegar færa sig milli sæta til að vera nær vinum sínum. Sama hver ástæðan er segir móðir Agnesar að aldrei eigi að henda farþegum út úr strætó á miðri leið. Ljósmynd/Af Facebook síðu Sædísar Óskar

„Algjört dómgreindarleysi“

Jóhannes Svavar Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó, sagði í samtal við mbl.is að vagnstjóri Strætó hefði sýnt algjört dómgreindarleysi með gjörðum sínum í gærkvöldi.

„Það er í verklagi okkar að það á aldrei að vísa farþegum út á víðavangi á landsbyggðinni. Bílstjórar eiga að hafa það á hreinu að þeir eiga að keyra farþega til síns ákvörðunarstaðar og reyna þá að útkljá málið þar ef þörf er á.“

Jóhannes gat ekki tjáð sig um framtíð vagnstjórans hjá Strætó, en hann staðfesti að farið verður yfir atvikið og verklag Strætó verði írekað við starfsfólk fyrirtækisins.

„Ég skil vel að stúlkan hafi verið ósátt við þessa framkomu. Ég sendi móðurinni tölvupóst og baðst afsökunar á framkomunni sem er ekki í samræmi við okkar verklag,“ segir Jóhannes.

Sædís segir að mikilvægt sé að vekja athygli á atvikinu þar sem hún þekki fleiri dæmi þar foreldrar og börn hafi átt í samskiptaerfiðleikum með vagnstjóra sem aka á milli Eyrarbakka og Selfoss.

„Þetta er lítið samfélag, hér eru mörg börn sem sækja íþróttir og tómstundastarf á Selfoss og því er mikilvægt að samgöngur eins og Strætó séu í góðu lagi og að samskiptin milli vangstjóra og farþega séu í lagi.“

Stöðufærsla Sædísar í heild sinni: 

Það er ekki oft sem ég reiðist eða æsi mig, en í kvöld gerðist atvik sem gerði það að verkum að ég varð mjög reið.Dó...

Posted by Sædís Ósk Harðardóttir on Wednesday, February 17, 2016
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert