40% gætu ekki tekið lán

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. mbl.is/Styrmir Kári

Hugsanlegt er að 40% þeirra sem taka verðtryggð jafngreiðslulán til 40 ára gætu ekki tekið slík lán til 25 ára ef hamarkstími slíkra lána yrði bundinn við þann tíma. Þetta kom fram í máli Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra á Alþingi í dag í sérstakri umræðu um verðtrygginguna. Vísaði hann þar til hugmynda sem meðal annars hafi verið skoðaðar í þessum efnun um að banna verðtryggð lán til 40 ára og að ekki heimilt að veita slík lán til lengri tíma en 25 ára.

Þetta væri á meðal þess sem komið hefði í ljós í vinnu fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Bjarni gerði þó þann fyrirvara að þeirri vinnu væri ekki lokið og ekki væru allar upplýsingar komnar í hús frá fjármálakerfinu. Hann benti hins vegar á að sá hópur sem gæti þá ekki lengur tekið verðtryggð lán til húsnæðiskaupa væri fólkið sem hefði minnst á milli handanna. Þá þyrfti að skoða hvort þeim einum ætti að standa slík lán til boða eða hvort grípa þyrfti til einhverra mótvægisaðgerða og þá þyrfti að leggja mat á það hversu langt þær ættu að ganga. 

Fjármálaráðherra benti í þessu sambandi á að sérstök nefnd um verðtrygginguna hefði lagt til að hækka lágmarkstíma verðtryggðra lána úr 5 árum í 10 ár og ennfremur að hætt yrði að veita 40 ára verðtryggð jafngreiðslulán. Sagði hann ráðuneytið vera komið með mjög marktæk gögn sem bentu til þess að lækkun á hámarkstímanum kæmi sér illa fyrir þá sem minnst hefðu á milli handanna. Það væru sem fyrr segir 40% þeirra sem tækju slík lán og jafnvel hærra hlutfall en það. 

Bjarni sagði að varla væri vilji til þess að taka einn lánaflokk út einungis til þess að ríkið þyrfti að grípa til viðamikilla mótvægisaðgerða í formi bótagreiðsla. „Ég tel að það sé til mikils að vinna að draga úr almennri notkun hennar [verðtryggingarinnar] en það verður að gerast þannig að við séum ekki að þrengja að þeim hópum sem minnst hafa á milli handanna og hafa verið að kjósa þennan valkost til þess að komast í eigið húsnæði.“

Ráðherrann sagði ennfremur að lykilatriðið væri að ríkisfjármálin styddu við stöðugt verðlag í landinu og að traust ríkti á milli vinnumarkaðarins og stjórnvalda sem skilaði sér í ábyrgum kjarasamningum og þannig væri sameiginlega róið öllum árum að meiri stöðugleika, minni verðbólgu og lægra vaxtastigi. Þetta væri hægt að gera þó það hafi ekki gengið nógu vel í gegnum tíðina og vonandi væru bjartari tímar framundan með Salek-samkomulaginu á vinnumarkaði og nýsamþykktum lögum um opinber fjármál.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert