Hvernig verður stjórnarskránni breytt?

Tillögur stjórnarskrárnefndar að þremur nýjum ákvæðum í stjórnarskrá lýðveldisins verða kynntar í lok vikunnar en þau snúa að náttúruauðlindum í þjóðareign, umhverfi og náttúru og að ákveðið hlutfall kosningabærra manna geti kallað eftir þjóðaratkvæði um lög frá Alþingi. Þó ekki um lög sem sett eru til að framfylgja þjóðréttarlegum skuldbindingum, lög um skattamál og fjárlög og fjáraukalög. Þá náðist ekki samstaða í nefndinni um ákvæði um framhald ríkisvalds til alþjóðlegra stofnana sem var eitt af því sem nefndin hafði til skoðunar líkt og fjallað er um í Morgunblaðinu í dag.

Tillögur stjórnarskrárnefndarinnar verða afhentar forsætisráðherra og fara síðan í kjölfarið til meðferðar á Alþingi en til þess að lagafrumvarp um stjórnarskrárbreytingar nái fram að ganga þurfa 2/3 þingmanna að samþykkja það samkvæmt bráðabirgðaákvæði í stjórnarskránni sem samþykkt í tengslum við síðustu þingkosningar. Frumvarpið fer þá í þjóðaratkvæði og þarf bæði meirihluta gildra atkvæða og stuðning 40% kosningabærra manna í landinu til þess að það nái fram að ganga, en gildistími bráðabirgðaákvæðisins er til 30. apríl 2017.

Fyrir þennan tíma þarf allt ferlið við að breyta stjórnarskránni að eiga sér stað samkvæmt bráðabirgðaákvæðinu að mati Bjargar Thorarensen, lagaprófessors við Háskóla Íslands og sérfræðings í stjórnskipunarrétti. Það er afgreiðsla Alþingis og þjóðaratkvæðagreiðslan auk staðfestingar forseta Íslands. Ekkert liggur fyrir um það hvenær þjóðaratkvæðið kann að fara fram að því gefnu að Alþingi afgreiði máli frá sér en til skamms tíma voru uppi hugmyndir um að það gæti hugsanlega farið fram samhliða forsetakosningunum í vor.

Frumvarpið þarf að samþykkja í október

Hvort þjóðaratkvæðagreiðslan um stjórnarskrárbreytingarnar fer fram samhliða næstu þingkosningum eða fyrr á eftir að koma í ljós. Eðli málsins samkvæmt ræðst það ekki síst af því hvort sú breiða samstaða á Alþingi, sem kveðið er á um í bráðabirgðaákvæðinu í stjórnarskránni, næst um breytingarnar og hversu mikinn tíma þingið tekur í að fjalla um málið og afgreiða það frá sér. Það er ef það verður niðurstaðan. Sem fyrr segir þarf samþykki 2/3 þingmanna sem eru 42 þingmenn af þeim 63 sem þar eiga sæti.

Bráðabirgðaákvæðið í stjórnarskránni gerir ráð fyrir því að sex mánuðir hið minnsta og níu mánuðir hið mesta þurfi að líða frá því að frumvarp um stjórnarskrárbreytingar er samþykkt á Alþingi þar til það er lagt í þjóðaratkvæði. Þetta þýðir að ef halda á þjóðaratkvæðagreiðsluna samhliða næstu þingkosningum þarf að samþykkja frumvarpið í síðasta lagi í október næsta haust sé miðað við lágmarkstímann. Í vor sé miðað við hámarkið. Verði ákveðið að halda þjóðaratkvæðagreiðsluna fyrr þarf að sama skapi að samþykkja frumvarpið fyrr. 

Stjórnarskrárnefndin var skipuð í nóvember 2013 af Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni og er hún skipuð fulltrúum þeirra flokka sem fulltrúa eiga á Alþingi. Formaður nefndarinnar er Páll Þórhallsson, skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu, en aðrir nefndarmenn eru: Birgir Ármannsson og Valgerður Gunnarsdóttir fyrir Sjálfstæðisflokkinn, Einar Hugi Bjarnason og Jón Kristjánsson fyrir Framsóknarflokkinn, Valgerður Bjarnadóttir fyrir Samfylkinguna, Aðalheiður Ámundadóttir fyrir Pírata, Katrín Jakobsdóttir fyrir Vinstrihreyfinguna - grænt framboð og Valgerður Björk Pálsdóttir fyrir Bjarta framtíð.

Björg Thorarensen, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands.
Björg Thorarensen, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert