Katrín Júlíusdóttir, varaformaður Samfylkingarinnar, ætlar að hætta á Alþingi eftir næstu þingkosningar.
Katrín sendi bréf til flokksfélaga sinna þar sem hún greindi frá því að hún mun ekki gefa kost á sér til forystustarfa fyrir flokkinn á landsfundi Samfylkingarinnar sem verður haldinn í sumar. Þar sagði hún ákvörðun sína persónulega og núna sé rétti tíminn til að snúa sér að öðrum hlutum.
Katrín hefur setið á Alþingi í 13 ár og hefur sinnt störfum fyrir jafnaðarmenn í meira en tvo áratugi.
Hér er bréfið sem Katrín sendi flokksfélögum sínum:
Kæru félagar,
spennandi og krefjandi tímar eru framundan hjá okkur sósíaldemókrötum á Íslandi. Stærsta verkefnið er að mynda samhenta sveit sem tryggir sterka rödd jöfnuðar, réttlætis, gagnsæis og frelsis í pólitískri umræðu og aðgerðum.
Í yfir 20 ár hefur hreyfing jafnaðarmanna treyst mér fyrir ólíkum verkefnum, þar af hafið þið falið mér það mikilvæga verkefni að sitja á Alþingi Íslendinga sl. 13 ár. Þar hef ég á hverjum degi lagt mig fram um að gera mitt allra besta í mörgum ólíkum hlutverkum; í störfum nefnda, í forystu iðnaðarnefndar, í forystu EFTA/EES þingmannanefndarinnar ásamt því að gegna embætti iðnaðarráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra.
Um leið og ég þakka ykkur fyrir þetta traust sem þið hafið sýnt mér, finnst mér mikilvægt að deila með ykkur ákvörðun sem ég hef tekið.
Mörg ykkar hafið skorað á mig undanfarið að sækjast eftir frekara forystuhlutverki í okkar hreyfingu nú á þessu vori og fyrir það traust og þá vináttu sem þið sýnið mér er ég afar þakklát. Ég hef hinsvegar tekið þá ákvörðun að sækjast ekki eftir endurkjöri í næstu alþingiskosningum og þar af leiðandi mun ég ekki bjóða fram krafta mína til frekari forystustarfa fyrir Samfylkinguna. Ákvörðun mín um að þetta verði mitt síðasta kjörtímabil sem ykkar fulltrúi á þingi er persónuleg, ég finn að nú er rétti tíminn til að snúa mér að öðru. Á sama tíma og ég mun sakna samstarfsins við ykkur þá er ég líka spennt fyrir framtíðarævintýrum. Ég er lánsöm. Á fallega fjölskyldu, elska lífið og ætla að halda áfram að grípa ný og spennandi tækifæri með báðum höndum.
Ný flott kynslóð stjórnmálamanna á öllum aldri bankar nú á dyrnar. Þeim eigum við að fagna og treysta til að bera kyndil hugsjóna okkar inn í nýja tíma. Vil ég jafnframt nota þetta tækifæri til að hvetja ungt fólk til að láta til sín taka í stjórnmálum og móta þannig framtíðina við hlið reynsluboltanna.
Þetta er ekki kveðjubréf - það kemur þegar ég læt af störfum:)
Látum komandi misseri einkennast af gerjun og kraumandi umræðu um hugmyndir og framtíðarlausnir á verkefnunum sem við blasa.
Hlakka til að taka þátt í því með ykkur!
Ykkar,
Katrín
Frétt mbl.is: „Áfall fyrir flokkinn“
Frétt mbl.is: „Ég sakna hennar nánast nú þegar“