Bjarni: Landsbankinn ber ábyrgð

Bjarni Benedigtsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benedigtsson fjármálaráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

„Hver ber ábyrgðina? Það eru stjórn og stjórnendur Landsbankans sem bera ábyrgðina,“ sagði fjármálaráðherra í umræðum um söluferli Borgunar á Alþingi í dag. Hann sagði stjórnvöld hafa gripið til aðgerða til að tryggja það að svona hlutir endurtaki sig ekki. 

Svandís Svavarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, ræddi söluferli Borgunar í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag. Hún spurði Bjarna hvort það hefði ekki verið klúður af hálfu fjármálaráðherra að grípa ekki strax inn í málið með sérstakri athugun, eins og ítrekað hafi verði kallað eftir. Svandís segist hafa óskað eftir skýringum í janúar 2015 á því hvers vegna hluturinn hefði verið settur í lokað söluferli. 

„Hvers vegna hefur hefur fjármálaráðherra ekki aðhafst í máli Borgunar og sölu Landsbankans á hlut sínum á Borgun á þessum tíma? Nú er ástæða til þess að endurvinna trúverðugleika,“ sagði Svandís og bætti við að fjármálaráðherra bæri pólitíska ábyrgð á málinu. 

Opin, gegnsæ meðferð skiptir öllu fyrir traust

Bjarni benti á, að hann hefði skrifað Bankasýslunni, sem fari með eignahlut ríkisins í Landsbankanum, bréf og óskað eftir því að allar upplýsingar varðandi ákvarðanir sem tengjast sölunni verði dregnar upp á yfirborðið. 

„Nú liggur fyrir, að stjórnendur Landsbankans hefðu betur haft söluferlið opið á sínum tíma. Það var gengist við mistökum hvað það snertir og ætti þess vegna að vera öllum ljóst, að menn hafa gert sér grein fyrir því að opin, gegnsæ meðferð þessara mála skiptir öllu fyrir traust,“ sagði Bjarni.

Hann sagði að hlutverk fjármálaráðherra væri að marka eigendastefnuna og fylgja henni eftir. Hún væri nú til endurskoðunar. M.a. sé horft til þess að byggja upp heilbrigt og öflugt fjármálakerfi, byggja upp traust og trúverðugleika og að ríkið fái arð af því fé sem það leggur til fjármálafyrirtækja. 

Ódýr pólitík

Bjarni segir að það sé ódýr pólitík að segja að öll ábyrgð á einstökum ákvörðunum í bönkum, sem séu í ríkiseigu, liggi hjá fjármálaráðherra. Hann telur að menn hafi sammælst um það að stjórn bankanna eigi að vera í armslengd frá áhrifum stjórnmálamanna. Það sé besta fyrirkomulagið til að auka traust á Íslandi.

Svandís spurði í framhaldinu, hvort það hefði ekki verið stærsta klúðrið þegar Landsbankinn ákvað að setja söluna á eignarhlut sínum í Borgun ekki í opið ferli. „Af hverju gekk hæstvirtur fjármálaráðherra ekki þá fram fyrir skjöldu með okkur sem gerðum kröfu um það að það yrði rannsakað og þetta yrði opið,“ ítrekaði Svandís.

Hver ber pólitíska ábyrgð?

„Hver ber pólitíska ábyrgð á því klúðri sem Borgunarmálið var sannanlega og fyrirliggjandi? Og hver ætlar að axla ábyrgð á klúðrinu?“

Bjarni benti á, að fjármálafyrirtækin hafi selt tugi fyrirtækja á undanförnum árum, m.a. í tíð síðustu ríkisstjórnar, án opins ferlis. Hann nefndi sem dæmi söluna á Advania, Icelandic og Húsasmiðjuna. „Má ég nefna nærri því hvert einasta fyrirtæki sem hefur ratað inn í Kauphöllina og voru komin í fang bankanna eftir hrunið, sem að ekki voru seld í opnu ferli. Meira eða minna öll á endanum í eignarhaldi lífeyrissjóða og síðan inn á skráðan markað,“ sagði Bjarni.

Stjórn og stjórnendur Landsbankans sem bera ábyrgðina

„Hver ber ábyrgðina? Það eru stjórn og stjórnendur Landsbankans sem bera ábyrgðina. Hin pólitíska ábyrgð mín er að tryggja að til staðar sé eigendastefna og að henni sé fylgt eftir. Og það er nákvæmlega það sem ég var að gera í bréfi til Bankasýslunnar fyrir skemmstu, að vekja athygli á samþykktri eigendastefnu ríkisins og óska eftir því að Banksýslan myndi grípa til aðgerða til að tryggja að þeirri eigendastefnu væru fylgt eftir.“

Hann bætti við að Borgunarmálið væri eitt af tugum, ef ekki hundruðum dæma, um eignarsölu sem hafi átt sér stað frá hruni án gegnsæis og án þess að það hafi verið gert í opnu ferli. 

„Við erum að grípa til aðgerða. Ég í mínu ráðuneytið við sem ríkisstjórn til þess að tryggja að svona hlutir endurtaki sig ekki,“ sagði Bjarni.

mbl.is/Eggert
Svandís Svavarsdóttir, þingmaður VG.
Svandís Svavarsdóttir, þingmaður VG. mbl.is/Ómar
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert