Bjarni: Landsbankinn ber ábyrgð

Bjarni Benedigtsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benedigtsson fjármálaráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

„Hver ber ábyrgðina? Það eru stjórn og stjórn­end­ur Lands­bank­ans sem bera ábyrgðina,“ sagði fjár­málaráðherra í umræðum um sölu­ferli Borg­un­ar á Alþingi í dag. Hann sagði stjórn­völd hafa gripið til aðgerða til að tryggja það að svona hlut­ir end­ur­taki sig ekki. 

Svandís Svavars­dótt­ir, þingmaður Vinstri grænna, ræddi sölu­ferli Borg­un­ar í óund­ir­bún­um fyr­ir­spurn­ar­tíma á Alþingi í dag. Hún spurði Bjarna hvort það hefði ekki verið klúður af hálfu fjár­málaráðherra að grípa ekki strax inn í málið með sér­stakri at­hug­un, eins og ít­rekað hafi verði kallað eft­ir. Svandís seg­ist hafa óskað eft­ir skýr­ing­um í janú­ar 2015 á því hvers vegna hlut­ur­inn hefði verið sett­ur í lokað sölu­ferli. 

„Hvers vegna hef­ur hef­ur fjár­málaráðherra ekki aðhafst í máli Borg­un­ar og sölu Lands­bank­ans á hlut sín­um á Borg­un á þess­um tíma? Nú er ástæða til þess að end­ur­vinna trú­verðug­leika,“ sagði Svandís og bætti við að fjár­málaráðherra bæri póli­tíska ábyrgð á mál­inu. 

Opin, gegn­sæ meðferð skipt­ir öllu fyr­ir traust

Bjarni benti á, að hann hefði skrifað Banka­sýsl­unni, sem fari með eigna­hlut rík­is­ins í Lands­bank­an­um, bréf og óskað eft­ir því að all­ar upp­lýs­ing­ar varðandi ákv­arðanir sem tengj­ast söl­unni verði dregn­ar upp á yf­ir­borðið. 

„Nú ligg­ur fyr­ir, að stjórn­end­ur Lands­bank­ans hefðu bet­ur haft sölu­ferlið opið á sín­um tíma. Það var geng­ist við mis­tök­um hvað það snert­ir og ætti þess vegna að vera öll­um ljóst, að menn hafa gert sér grein fyr­ir því að opin, gegn­sæ meðferð þess­ara mála skipt­ir öllu fyr­ir traust,“ sagði Bjarni.

Hann sagði að hlut­verk fjár­málaráðherra væri að marka eig­enda­stefn­una og fylgja henni eft­ir. Hún væri nú til end­ur­skoðunar. M.a. sé horft til þess að byggja upp heil­brigt og öfl­ugt fjár­mála­kerfi, byggja upp traust og trú­verðug­leika og að ríkið fái arð af því fé sem það legg­ur til fjár­mála­fyr­ir­tækja. 

Ódýr póli­tík

Bjarni seg­ir að það sé ódýr póli­tík að segja að öll ábyrgð á ein­stök­um ákvörðunum í bönk­um, sem séu í rík­is­eigu, liggi hjá fjár­málaráðherra. Hann tel­ur að menn hafi sam­mælst um það að stjórn bank­anna eigi að vera í arms­lengd frá áhrif­um stjórn­mála­manna. Það sé besta fyr­ir­komu­lagið til að auka traust á Íslandi.

Svandís spurði í fram­hald­inu, hvort það hefði ekki verið stærsta klúðrið þegar Lands­bank­inn ákvað að setja söl­una á eign­ar­hlut sín­um í Borg­un ekki í opið ferli. „Af hverju gekk hæst­virt­ur fjár­málaráðherra ekki þá fram fyr­ir skjöldu með okk­ur sem gerðum kröfu um það að það yrði rann­sakað og þetta yrði opið,“ ít­rekaði Svandís.

Hver ber póli­tíska ábyrgð?

„Hver ber póli­tíska ábyrgð á því klúðri sem Borg­un­ar­málið var sann­an­lega og fyr­ir­liggj­andi? Og hver ætl­ar að axla ábyrgð á klúðrinu?“

Bjarni benti á, að fjár­mála­fyr­ir­tæk­in hafi selt tugi fyr­ir­tækja á und­an­förn­um árum, m.a. í tíð síðustu rík­is­stjórn­ar, án op­ins ferl­is. Hann nefndi sem dæmi söl­una á Advania, Icelandic og Húsa­smiðjuna. „Má ég nefna nærri því hvert ein­asta fyr­ir­tæki sem hef­ur ratað inn í Kaup­höll­ina og voru kom­in í fang bank­anna eft­ir hrunið, sem að ekki voru seld í opnu ferli. Meira eða minna öll á end­an­um í eign­ar­haldi líf­eyr­is­sjóða og síðan inn á skráðan markað,“ sagði Bjarni.

Stjórn og stjórn­end­ur Lands­bank­ans sem bera ábyrgðina

„Hver ber ábyrgðina? Það eru stjórn og stjórn­end­ur Lands­bank­ans sem bera ábyrgðina. Hin póli­tíska ábyrgð mín er að tryggja að til staðar sé eig­enda­stefna og að henni sé fylgt eft­ir. Og það er ná­kvæm­lega það sem ég var að gera í bréfi til Banka­sýsl­unn­ar fyr­ir skemmstu, að vekja at­hygli á samþykktri eig­enda­stefnu rík­is­ins og óska eft­ir því að Bank­sýsl­an myndi grípa til aðgerða til að tryggja að þeirri eig­enda­stefnu væru fylgt eft­ir.“

Hann bætti við að Borg­un­ar­málið væri eitt af tug­um, ef ekki hundruðum dæma, um eign­ar­sölu sem hafi átt sér stað frá hruni án gegn­sæ­is og án þess að það hafi verið gert í opnu ferli. 

„Við erum að grípa til aðgerða. Ég í mínu ráðuneytið við sem rík­is­stjórn til þess að tryggja að svona hlut­ir end­ur­taki sig ekki,“ sagði Bjarni.

mbl.is/​Eggert
Svandís Svavarsdóttir, þingmaður VG.
Svandís Svavars­dótt­ir, þingmaður VG. mbl.is/Ó​mar
mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert