Mótmæli standa nú yfir fyrir framan innanríkisráðuneytið við Sölvhólsgötu en þar eru nokkrir tugir manna saman komnir til að lýsa yfir stuðningi við fjóra hælisleitendur, en þar til seint í gærkvöldi stóð til að vísa þremur þeirra úr landi í nótt.
Að mótmælunum standa samtökin No Borders Iceland og Ekki fleiri brottvísanir auk Samtakanna 78. Segir í yfirskrift þeirra að þau skori á ráðherra að „hætta að fela sig á bak við andlitslausa skriffinna Útlendingastofnunar.“
Mótmælin hafa hingað til farið friðsamlega fram en fólk leikur á hljóðfæri við inngang ráðuneytisins. Mótmælendur kröfðust fundar við Ólöfu en fengu þau svör að hún væri ekki við. Ræddu mótmælendur þá við skrifstofustjóra ráðuneytisins auk þess sem hver samtök lásu upp yfirlýsingar sínar.
Frétt mbl.is: Stýrir almenningsálit ákvörðunum?
Jórunn Edda Helgadóttir talsmaður No Borders Iceland segir í samtali við mbl.is að henni þyki meðferð málsins hjá hinu opinbera vera afar óeðlileg.
„Til viðbótar við að þessar ákvarðanir séu ómannúðlegar og brjóti á mannréttindum fólks, þá er mjög greinilegt að vilji fólksins í landinu stendur þannig til að það sé öðruvísi tekið á þessum málum. Ráðamenn þurfa að fara að hlusta á það.“
Spurð af hverju mótmælin hafi verið skipulögð við innanríkisráðuneytið fremur en húsnæði Útlendingastofnunar segir Jórunn:
„Útlendingastofnun er náttúrulega undirstofnun innanríkisráðuneytisins og svo virðist vera sem stefna stofnunarinnar sé mótuð í miklum mæli af þeim sem fer fyrir ráðuneytinu. Þegar það er rætt við Útlendingastofnun þá fást jafnan þau svör að það sé ekkert hægt að gera. En innanríkisráðherra getur ekki borið það sama fyrir sig. Hún gefur mjög augljóslega stefnumótandi skipanir og meðferð málanna fer greinilega eftir þeim.“
Að sögn Jórunnar hefur einn hælisleitendanna, Idafe Onafe Oghene frá Nígeríu, átt íslenska kærustu til langs tíma.
„Hann hefur að miklu leyti gengið börnum hennar tveimur í föðurstað. En eins og þetta stóð til í gær þá sá hann ekki fram á að geta sagt bless. Þessir menn hafa verið hérna árum saman og mótað sitt líf, komið sér upp vinum og fjölskyldu. Nú á bara að fara að slíta þá frá því sem þeir hafa byggt upp hér í íslensku samfélagi, með engum fyrirvara. Þetta er algjörlega óboðlegt.“