„Mistök eru til þess að læra af. Kreppa stjórnmála og ekki síst okkar jafnaðarmanna er ekki séríslensk þótt hún djúp sé hér. Hún er sprottin af þeirri tilfinningu fólks að peningaöflin ráði, stjórnmálamenn séu í stjórnmálum bara sjálfs sín vegna og flokkarnir svíki gefin loforð,“ segir Helgi Hjörvar, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, í yfirlýsingu sem hann hefur sent til fjölmiðla í kjölfar þess að hann tilkynnti framboð til formennsku í flokknum.
„Fjármálakerfið styður ekki við almannahag. Ekki voru gerðar nægilegar breytingar á því í kjölfar hrunsins. Það dugar ekki að bíða eftir evrunni heldur þarf Samfylkingin skýra stefnubreytingu. Við eigum að halda aðildarumsókninni að ESB á lofti en hætta að segja allt sé ósanngjarnt og verði áfram óhóflega dýrt á meðan við höfum okkar veikburða gjaldmiðil. Við megum ekki fresta því að breyta kerfinu þangað til við fáum alvöru gjaldmiðil. Fjármálakerfið afneitar orsökum hrunsins og er á fullri ferð við að endurreisa sig óbreytt,“ segir Helgi ennfremur.
Vextir séu of háir enda fjármálakerfið hér á landi of dýrt. Brjóta þurfi upp fákeppni á bankamarkaði, aðgreina fjárfestingar- og viðskiptabanka og kveðja séríslenskar lausnir eins og verðtryggingu neytendalána. „Við þurfum að vera gagnrýnin á raunávöxtunarkröfuna og skapa aðrar og viðráðanlegri húsnæðislausnir fyrir ungt fólk, setja skorður við þjónustugjöldum banka, tryggja dreift eignarhald þeirra o.s.frv. Vaxandi spilling og þenslumerki eru hvarvetna. Við verðum að koma í veg fyrir að sömu hóparnir eignist bankana aftur og endurheimti ofurvald sitt yfir hverju einasta heimili og fyrirtæki í landinu.“
Stærsta verkefnið breytingar á bankakerfinu
Helgi segir breytingar á bankakerfinu vera stærsta verkefni stjórnmálanna hér á landi. Þó að Íslandi vegni vel um stund geti ytri skilyrði breyst hratt og kreppur komi aftur og aftur. Þær reglur sem nú séu í gildi auki á sjálfkrafa ójöfnuð og sóun fyrir auðsöfnun örfárra. „Við þurfum að hverfa aftur til grunngilda jafnaðarstefnunnar og skerpa pólitík okkar. Verkefnin framundan lúta ekki síst að húsnæðismálum, heilbrigðismálum og arðinum af auðlindum landsins. [...] Við þurfum að opna á ný leiðir fyrir tugþúsundir íslenskra jafnaðarmanna til að hafa bein áhrif á störf og stefnu Samfylkingarinnar.“
Vinstrimenn glími enn við sundrungu eins og svo oft áður. þess vegna eigi að taka fagnandi hugmyndum Pírata um stutt kjörtímabil eftir næstu þingkosningar með vel afmörkuðum verkefnum. Þannig megi læra af reynslunni og setja sér raunhæf markmið. „Við eigum líka að vera tilbúin til hvers konar samstarfs fyrir kosningar, hvort sem það er formlegt eða óformlegt, undir forystu okkar eða annarra og vera tilbúin til að sameinast, skipta um nafn, breyta áherslum, ef það þjónar því markmiði að skapa á ný trúverðugan valkost fyrir jafnaðarmenn.“
Helgi lýkur yfirlýsingunni á því að ítreka formannsframboð sitt. „Ég hef ákveðið að sækjast eftir því að leiða flokkinn frá landsfundi í vor. Ég skora á alla sem treysta sér í það verkefni og telja sig hafa erindi að gefa kost á sér því mikilvægt er að að fjölbreytt sjónarmið og valkostir verði í boði. Ég gef kost á mér til að breyta áherslum, endurskoða starfshætti, virkja krafta nýrrar kynslóðar og ná sem mestri samstöðu um sameiginlegar hugsjónir við hina í stjórnarandstöðunni.“