„Tímamótasamningar“ við bændur

Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. mbl.is/Sigurður Bogi

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og efnahags- og fjármálaráðherra undirrituðu í dag fyrir hönd ríkisins nýja búvörusamninga en þeir ná til framleiðslu grænmetis, kindakjöts og nautgripaafurða. Samningunum er ætlað að skapa landbúnaðinum ramma með það fyrir augum að auka verðmætasköpun og nýta sem best þau tækifæri sem felast í sveitum landsins í þágu bænda, neytenda og samfélagsins alls að því er segir í fréttatilkynningu.

„Sú uppbygging þarf að fara fram á grundvelli sérstöðu, sjálfbærni og fjölbreytni. Í því skyni eru í samningnum ný verkefni sem ætlað er að treysta stoðir landbúnaðarins og ýta undir framþróun, nýsköpun og byggðafestu. Töluvert miklar breytingar verða á starfsumhverfi bænda með tilkomu nýrra samninga. Stefnt er að því að leggja af svo kallað kvótakerfi, bæði í mjólkurframleiðslu og í sauðfjárrækt. Losað verður um styrkjafyrirkomulagið, þannig að greiðslur til bænda verða ekki bundnar við framleiðslu á mjólk eða kjöti eins og verið hefur.“

Haft er eftir Sigurði Inga Jóhannssyni landbúnaðarráðherra að afar ánægjulegt sé að búvörusamningarnir séu í höfn. „Ég tel að hér sé um tímamótasamninga að ræða, þar sem umtalsverðar breytingar verða gerðar á starfsskilyrðum. Af þeim sökum, meðal annars, er samningurinn til tíu ára. En ákvæði um tvær endurskoðanir eru í honum og menn geta því breytt um stefnu eða fyrirkomulag, ef þurfa þykir.“

Fram kemur í tilkynningunni að útgjöld ríkisins til landbúnaðarmála hækki um rúmar níu hundruð milljónir árið 2017 en fari síðan stiglækkandi út samningstímann og verði heldur lægri á síðasta ári samningsins en í ár. „Ástæður aukningarinnar eru þær helstar að tímabundið framlag vegna innleiðingar á nýjum reglugerðum um velferð dýra hafa mikinn kostnað í för með sér, stuðningur við átak í tengslum við innflutning á nýju erfðaefni af holdanautastofni til að efla framleiðslu og bæta gæði á nautakjöti, aukinn stuðningur við lífræna ræktun og framlög til að skjóta stoðum undir aukna fjölbreytni í landbúnaði.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka