Tvö önnur mansalsmál í rannsókn

Vinnumálastofnun hefur haft afskipti af tveimur vinnumansalsmálum á þessu ári.
Vinnumálastofnun hefur haft afskipti af tveimur vinnumansalsmálum á þessu ári. mbl.is/Ómar Óskarsson

Tvö önnur mál tengd vinnumansali eru í rannsókn hjá lögreglunni. Annað tengist framleiðsluiðnaðinum og kom upp í fyrra en hið síðara tengist byggingariðnaðinum og kom upp fyrr á þessu ári. Bæði málin voru fyrst í skoðun hjá Vinnumálastofnun og tiltölulega stutt er síðan hún lét síðara málið í hendur lögreglunnar. Þetta staðfestir Gísli Davíð Karlsson, lögfræðingur hjá stofnuninni.

Þar með hefur stofnunin haft afskipti af tveimur málum á þessu ári en karlmaður frá Sri Lanka er í haldi lögreglunnar grunaður um vinnumansal í Vík í Mýrdal.

Verktakafyrirtækið í skoðun í þrjá mánuði

Að sögn Gísla Davíðs hafði verktakafyrirtæki mannsins í Vík verið í skoðun  hjá Vinnumálastofnun síðustu þrjá mánuði. „Þetta fyrirtæki var á radarnum hjá okkur. Það eru þrír mánuðir síðan það datt inn á borðið hjá okkur,“ segir hann í samtali við mbl.is.

Vinnumálastofnun fylgist grannt með byggingariðnaðinum, sem hefur þanist út að …
Vinnumálastofnun fylgist grannt með byggingariðnaðinum, sem hefur þanist út að undanförnu. mbl.is/Ómar Óskarsson

Hafa áhyggjur af þróun mála

Málið sem tengist vinnumansali í framleiðsluiðnaðinum var það eina sem kom upp hjá stofnuninni á síðasta ári.

Gísli segir að þeim málum sem Vinnumálastofnun hefur sent áfram til lögreglunnar vegna gruns um mansal hafi ekki farið fjölgandi en tekur fram að hún hafi áhyggjur af þróun mála hér á landi.

„Við erum farin að vera meira vakandi fyrir þessum hættum sem stafa af þessu og höfum beint því til starfsfólks okkar að fylgjast meira með þessum málum,“ segir Gísli. „Okkur finnst fullt tilefni til að hafa eftirlit með þessu því það eru ákveðnar bjöllur sem hringja og vekja mann til umhugsunar,“ bætir hann við og hefur sérstakar áhyggjur af byggingariðnaðinum, enda hafi hann þanist út á stuttum tíma.

Í átaki vegna byggingariðnaðarins

„Við erum í átaki varðandi aukið eftirlit með honum, bæði varðandi mansalsmál og vinnuréttarmál. Við höfum einnig áhyggjur, eins og fleiri, af ferðaþjónustunni, og því sem getur átt sér stað þar,“ segir Gísli en tekur fram að enn sem komið er hafi stofnunin takmarkað eftirlit með henni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert