„Eins og þetta sé þjóðaríþrótt“

Katrín Júlíusdóttir var meðal gesta í Vikulokunum.
Katrín Júlíusdóttir var meðal gesta í Vikulokunum. mbl.is/Styrmir Kári

Af hverju geta Íslendingar ekki rekið viðskiptalíf sem er opið og allir geta tekið þátt í. „Það er eins og þetta sé þjóðaríþrótt,“ að vilja koma hlutum á valda einstaklinga. Þetta sagði Katrín Júlíusdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, í þættinum Vikulokin á Rás 1. Ræddi hún um Borgunarmálið ásamt þeim Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, ritara Sjálfstæðisflokksins og Birgittu Jónsdóttur, þingmanns Pírata.

Áslaug sagði verst við málið að það hafi ekki verið opið og gegnsætt. Hún taldi aftur á móti ómálefnalegt þegar sagt væri að mönnum hefði verið komið í ákveðna aðstöðu í gegnum tengsl þeirra við ríkisstjórnina og að ljóst væri að svo væri ekki í þessu máli. Vísaði hún þar til tengsla hluta kaupenda að Borgun og Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra.

Katrín sagðist ekki hafa meint það með orðum sínum heldur að það væri þjóðaríþrótt að ákveðnir aðilar fengju að taka þátt í lokuðum ferlum þegar kæmi að sölu eigna ríkisins. Nefndi hún einnig söluna á Símanum í því samhengi.

Birgitta sagði íslenskt þjóðfélag vera komið allt of mikið á gráa svæðið í dag og hér væri komin sama græðgisvæðing og hefði verið fyrir hrun. Sagði hún hugmyndir manna núna í kringum uppgang í þjóðfélaginu vera á þá leið að það væri „í lagi að fara á gráa svæðið ef maður kemst upp með það.“

Þá væri nýlegt mansalsmál dæmi um þessa þróun þar sem réttindi fólks væru ekki virt í þágu gróða. Þetta væri þó ekki fyrsta stóra blóðtakan heldur hafi hún komið í kringum byggingu Kárahnúka, sagði Birgitta.

Hún tók fram að orðum sínum um græðgisvæðinguna væri þó ekki beint að neinum einum, hvorki stjórnmálamönnum eða öðrum. Hún væri grasserandi allsstaðar í samfélaginu og væri þar mein.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert