Í drögum að nýju frumvarpi til stjórnskipunarlaga, sem stjórnarskrárnefnd birti í gærkvöldi, kemur fram að almenningi sé heimil för um landið og dvöl þar í lögmætum tilgangi.
Þá er almenningi einnig tryggður réttur til upplýsinga um ástand umhverfis og áhrif framkvæmda á það svo og til þátttöku í undirbúningi ákvarðana sem áhrif hafa á umhverfið.
Í frumvarpinu er nánar mælt fyrir um að ábyrgð á vernd náttúru og umhverfis hvíli sameiginlega á öllum. Stjórnarskrárnefnd lagði einnig fram drög að tveimur frumvörpum til viðbótar sem snúa að auðlindum, náttúru Íslands og þjóðaratkvæðagreiðslum um lög frá Alþingi, að því er fram kemur í umfjöllun um tillögur nefndarinnar í Morgunblaðinu í dag, en hægt er að nálgast drögin á vefnum stjornarskra.is eða á vef forsætisráðuneytisins.