John Fenger, stjórnarformaður Thorsil, félagsins sem undirbýr byggingu og rekstur kísilmálmverksmiðju í Helguvík, segir að gangsetning verksmiðjunnar sé áætluð á öðrum ársfjórðungi 2018.
Í samtali í Morgunblaðinu í dag segir Fenger að fjármögnun sé á lokastigi og framkvæmdir hefjist um mitt ár. Hann segir horfur í kísilmálmiðnaði mjög góðar og þrátt fyrir áform um þrjár nýjar kísilmálmverksmiðjur hér á landi og eina í Sádi-Arabíu sé gert ráð fyrir því að eftir fjögur til fimm ár verði kísilmálmskortur í heiminum.
„Áliðnaðurinn á Íslandi notar kísilmálm og einnig gæti byggst hér upp sólarkísilvinnsla. Hér ætti því að verða til markaður fyrir umtalsvert magn af kísilmálmi innan fárra ára, sem nýttur væri á Íslandi,“ segir Fenger.