Oft mjög háðir kvölurum sínum

Alda Hrönn Jóhannsdóttir segir þolendur mansals oft vera mjög háðir …
Alda Hrönn Jóhannsdóttir segir þolendur mansals oft vera mjög háðir kvölurum sínum. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

„Það er auðvitað hörmulegt að svona geti gerst og menn eru slegnir yfir þessu í þessu litla samfélagi sem er hér,“ segir Ásgeir Magnússon, sveitarstjóri í Mýrdalshreppi, í kjölfar þess að maður frá Srí Lanka, búsettur á Vík, var handtekinn í fyrradag grunaður um mansal.

Grunur leikur á að hann hafi verið með tvær konur í þrælkunarvinnu í saumastofu á jarðhæð á heimili sínu í miðjum bænum. Maðurinn var úrskurðaður í mánaðar gæsluvarðhald síðdegis í gær.

Hinn handtekni var undirverktaki fyrir Icewear og í tilkynningu frá fyrirtækinu kemur fram að maðurinn hafi starfað fyrir fyrirtækið sem undirverktaki en að samningi við hann hafi verið rift.

Ásgeir segir að hann hafi þekkt til hins handtekna sem flutti til landsins fyrir 3-4 árum og býr í Vík ásamt eiginkonu sinni sem einnig er frá Srí Lanka. „Þau hafa rekið fyrirtæki sem eru í þessum prjóna- og saumaskap. Það kom okkur því mjög á óvart að eitthvað svona væri í gangi,“ segir Ásgeir.

Þrátt fyrir að samfélagið í Vík sé fámennt hefur hann ekki orðið var við veru meintra þolenda, kvennanna tveggja í bænum. „En það er eðlilegt í ljósi þess að hér er fjölþjóðlegt samfélag og margir ferðamenn sem fara hér í gegn,“ segir Ásgeir.

Samstarf þriggja umdæma

Þrjú lögregluembætti stóðu að aðgerðinni. Lögreglan á Suðurlandi, lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og lögreglan á Suðurnesjum. Lögregluembættið á Suðurlandi hafði forgöngu í málinu en fékk liðsinni sérfræðinga í mansalsmálum frá hinum tveimur embættunum.

Þorgrímur Óli Guðmundsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi, segir að þetta sé fyrsta mansalsmálið sem komið hefur inn á borð í umdæminu en vildi að öðru leyti ekki tjá sig um málið.

Meintum þolendum hefur verið úthlutaður réttargæslumaður. Engar upplýsingar fengust um það hvort þær séu með dvalar- eða landvistarleyfi, eða séu með kennitölu hér á landi. Stendur þeim til boða sálfræðiþjónusta og er málið eftir atvikum á herðum velferðarráðuneytisins eða félagsþjónustu viðkomandi sveitarfélags.

Til skoðunar í þrjá mánuði

Að sögn Gísla Davíðs Karlssonar, lögfræðings Vinnumálastofnunar, hafði verktakafyrirtæki mannsins í Vík verið í skoðun hjá Vinnumálastofnun síðustu þrjá mánuði. „Þetta fyrirtæki var á radarnum hjá okkur. Það eru þrír mánuðir síðan það datt inn á borðið hjá okkur,“ segir hann í samtali við mbl.is.

Fimm mál eru til rannsóknar

Alda Hrönn Jóhannsdóttir, aðallögfræðingur hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir að reglulega komi upp mál þar sem grunur leikur á mansali. Alla jafna hefur verið um ábendingar að ræða, gjarnan frá stéttarfélögum. Alls voru um 20 mál skoðuð á síðasta ári en fimm þeirra eru til rannsóknar. „Það eru nokkur mál sem hafa verið til skoðunar, en sönnunarbyrði er gjarnan erfið í þessum málum,“ segir Alda Hrönn.
„Stundum er það þannig að ef um er að ræða erlent vinnuafl, þá eru þeir einstaklingar gjarnan farnir af landi brott þegar við fáum þessar ábendingar. Því erum við stundum ekki með eiginlegan þolanda í höndunum. Eins er það gjarnan þannig að þolendur eru mjög háðir kvölurum sínum og vilja ekki aðstoð frá lögreglu,“ segir Alda.
Hún segir að um fimm mál séu til rannsóknar. „Sum eru til rannsóknar, en önnur eru enn opin en í bið þar sem við erum að bíða eftir frekari upplýsingum eða að fylgjast með framvindu málanna,“ segir Alda.
Vík í Mýrdal.
Vík í Mýrdal. Sigurður Bogi Sævarsson
Húsið þar sem hjónin frá Sri Lanka búa.
Húsið þar sem hjónin frá Sri Lanka búa.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert