Þingstarfið á ekki að vera ævistarf heldur á að vera auðveldara fyrir stjórnmálafólk að stíga út af þingi og inn í almennt atvinnulíf á ný. Á Íslandi hefur aftur á móti fólk þurft að treysta á sinn flokk að fá starf að þingsetu lokinni. Þetta sagði Birgitta Jónsdóttir, þingmaður pírata, í þættinum Vikulokin á Rás 1 í morgun.
Birgitta var gestur þáttarins ásamt þeim Katrínu Júlíusdóttur, þingmanni Samfylkingarinnar og Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, ritar Sjálfstæðisflokksins.
Áslaug tók undir orð Birgittu og sagði að svo virtist vera sem ungt fólk væri ekki spennt fyrir þingstarfinu þar sem hugsunin væri að ef fólk færi þar inn væri það fast til æviloka. Sagði hún að í hugum margra væru stjórnmál ekki „stökkpallur heldur niðurrif.“
Sammældust þær um að stjórnmál væru ekki vinsæl meðal ungs fólks og fór Birgitta að velta fyrir sér fleiri ástæðum þess. Sagði hún meðal annars að ein ástæða þess væri hvernig skynjun fólks væri fyrir störfum þingsins og þingsköpum. Sagði hún að meðal annars mætti velta því fyrir sér hvort orðið þingsköp væri dónalegt orð.
Áslaug sagði ákvörðun Katrínar í vikunni að stíga til hliðar með góðum fyrirvara vera til fyrirmyndar. Þar hafi hún gefið ungu fólki gott svigrúm til að ákveða hvort það vilji koma inn í stjórnmálin í hennar flokki.
Katrín sagði ákvörðun sína um að stíga til hliðar núna meðal annars tilkomna vegna þess að þegar hún tók sæti á þingi hafi hún lofað sér að hún ætlaði að vera í hámark þrjú kjörtímabil á þingi. Nú væri hún á fjórða tímabilinu og að það hefði laumast að henni tilfinning um að þurfa að gera eitthvað annað.
Í tengslum við hvort stjórnmál væru frekar niðurrif frekar en stökkpallur sagði hún aftur á móti að stjórnmálafólk þyrfti að gera sér grein fyrir því að það væri alltaf einstaklingar sem gætu ekki verið ósammála fólki nema að kalla það öllum illum nöfnum. Segir hún að áður hafi þetta fólk gert það á fundum eða heima upp í sófa. Nú gerði það slík á netinu þar sem það væri opið öllum. Sagðist hún ekki finna mikið fyrir þessu niðurrifi með því að hugsa um málið á þennan hátt.