Ég skal koma með játningu!

Baltasar Kormákur Samper.
Baltasar Kormákur Samper. mbl.is/Golli

Baltasar Kormákur er að leggja lokahönd á tökur á nýjustu kvikmynd sinni, Eiðnum, þar sem hann fer sjálfur með aðalhlutverkið. Hann er í skýjunum með viðtökurnar sem Ófærð hefur fengið, hér heima og erlendis, en svo virðist sem þættinum hafi tekist að sameina þjóðina fyrir framan sjónvarpið. Sunnudagsblað Morgunblaðsins heimsótti Baltasar á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. 

Baltasar Kormákur kemur mæðulegur fram á ganginn. Á hæla honum Ingvar aldavinur hans Sigurðsson. „Hvað gerðist eiginlega þarna áðan?“ spyr Ingvar undrandi. „Varstu að flýta þér of mikið?“

„Ég veit það ekki. Þetta á ekki að geta gerst,“ svarar Baltasar, lágum rómi. Síðan muldrar hann eitthvað sem flugan á veggnum nær ekki að greina. Þeir félagar eru augljóslega í uppnámi.

„Er ekki allt í lagi?“ spyr Ingvar eftir stutta þögn. „Ertu byrjaður að drekka aftur?“

Þeir horfast í augu.

„Nei,“ svarar Baltasar hneykslaður á svipinn. Samt er engin sérstök sannfæring í röddinni.

„Ég bara spurði,“ segir Ingvar.

Að því búnu gengur Baltasar hröðum skrefum fram ganginn. Nemur svo skyndilega staðar, snýst á hæli og mælir, hátt og snjallt: „Kött. Þetta er komið!“

Stendur í ströngu

Þú ert kominn á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, lesandi góður, þar sem tökur standa yfir á nýjustu kvikmynd Baltasars, Eiðnum, en auk þess að leikstýra henni fer hann sjálfur með aðalhlutverkið. Leikur hjartaskurðlækni sem stendur, af atriðinu sem lýst er hér að framan að dæma, í ströngu, bæði í leik og starfi.

Læknirinn á að starfa á Landspítalanum en þar eru kvikmyndatökur ekki leyfðar á skurðstofum. Fyrir vikið leitaði Rvk Studios, sem framleiðir myndina, til Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja og gáfu þeir leyfi til kvikmyndatöku í sínum skurðstofum. Aðeins þurfti að bregða penslum á vegg til að skurðstofugangurinn líktist Landspítalanum meira og líma merkimiða á hurðir. „Þeir hafa verið rosalega liðlegir við okkur hérna,“ segir Hjörtur Grétarsson, starfsmaður Rvk Studios, sem tekur á móti okkur Golla ljósmyndara.

Meðan Baltasar, sem við erum komnir til að hitta, og fólk hans bera saman bækur sínar leiðir Hjörtur okkur inn á eina skurðstofuna. Þar liggur dönsk gína á borðinu með galopið brjósthol. Næsta dag stendur til að taka upp hjartaskurðaðgerð og þar verður gínan í lykilhlutverki

Gefur engan afslátt

Tómas Guðbjartsson hjartaskurðlæknir er einnig á svæðinu en hann er sérstakur ráðgjafi við Eiðinn.

„Balti gefur engan afslátt af raunveruleikanum og pælir mikið í smáatriðum, þess vegna fékk hann mig til að gefa sér holl ráð, bæði varðandi handritið og tökur á einstökum atriðum, þar sem lækningar eru í veigamiklu hlutverki,“ segir Tómas sem gegndi sama hlutverki við tökur á mynd Dags Kára, Good Heart.

„Þetta hefur verið fróðleg reynsla. Það er gaman að vinna með listafólki. Það sér hlutina oft öðruvísi en maður sjálfur.“

Að því sögðu hendir Tómas tvö gervihjörtu á lofti. „Við höfum reynt ýmislegt til að gera aðgerðirnar sem raunverulegastar, til dæmis að baða hjörtun upp úr svínsblóði sem blandað var sírópi. Það var ekki svo slæm hugmynd, þangað til hjartað sat fast í höndunum á okkur.“

Hann hlær.

Í ljós kemur að Tómas og Baltasar þekkjast frá fornu fari; voru saman í MR. Tómas Inspector scholae og Baltasar formaður Herranætur.

Þetta er þó í fyrsta sinn sem þeir vinna saman með þessum hætti. „Ég er að vísu mikill fjallgöngumaður og Balti hefði getað leitað til mín þegar hann var að gera Everest. En hann hafði svo sem aðgang að ansi góðum mönnum þar. Hann hringir kannski í mig ef hann gerir mynd um Herðubreið eða Hvannadalshnjúk?“

Hann brosir.

Dramatískur þriller

Jæja, þá er tökuliðinu smalað í mat og Baltasar er laus. Ég skammast mín fyrir að hafa af honum matinn en hann segir mér að hafa ekki áhyggjur af því. Fær líklega næga næringu úr listinni.

Leikstjórinn er í sægrænu skurðstofudressi og hefur látið andlitsgrímuna síga niður á háls.

„Við byrjuðum í desember og erum að klára tökur í næstu viku,“ upplýsir Baltasar, þegar við höfum komið okkur fyrir við enda skurðstofugangsins.

„Þetta er dramatískur þriller. Ég leik Finn, hjartaskurðlækni sem er undir miklu álagi, bæði persónulega og í vinnunni. Dóttir hans, sem Hera Hilmarsdóttir leikur, er komin í samband við mann sem tengdur er í undirheimana, leikinn af Gísla Erni Garðarssyni, og Finnur þarf að bjarga henni. Margrét Bjarnadóttir leikur eiginkonu mína og Ingvar E. Sigurðsson vin minn sem er líka hjartaskurðlæknir.“ Vinátta Ingvars og Baltasars stendur á gömlum merg en þeir voru í sama bekk í Leiklistarskóla Íslands og brautskráðust árið 1990. „Það er alltaf gott að vinna með Ingvari og ég get fullvissað þig um að hann er hér af listrænum verðleikum en ekki vegna vináttu okkar. Ég á fullt af vinum sem ég nota aldrei í mínum myndum.“

Hann hlær.

Ætlaði ekki að leika

Ég vísa til samtals míns við Tómas Guðbjartsson og Baltasar segir hann mjög mikilvægan þegar kemur að læknisfræðilegum smáatriðum, sérstaklega í skurðaðgerðum. „Þeir hlutir þurfa að vera í lagi, handtök og annað. Sumt getur þó þurft að víkja fyrir dramatískari framsetningu. Ég komst til dæmis að því þegar ég gerði Mýrina að lögreglan setur sönnunargögn aldrei í plastpoka, einsog gjarnan má sjá í amerískum þáttum og kvikmyndum, þau geta myglað þar. Það lítur bara betur út fyrir áhorfandann.“

Þegar Baltasar byrjaði að skrifa handritið að Eiðnum ásamt Ólafi Agli Egilssyni hafði hann engin áform um að leika aðalhlutverkið. Hann hefur lítið leikið í seinni tíð, frekar einbeitt sér að leikstjórn og framleiðslu kvikmynda. Þegar sögunni vatt fram fór hann hins vegar að tengja við persónu Finns og komst að þeirri niðurstöðu að hann væri heppilegur í hlutverkið.

„Ég tengi við margt hjá Finni, ekki síst skapið og brestina. Ég er ekki gallalaus maður og átti það til að fara fram úr mér þegar ég var yngri; ekki síst þegar ég var í slagtogi við Bakkus. Ég slóst þegar ég var fullur og hef verið handtekinn og yfirheyrður af lögreglu. Það er ýmislegt fleira, Finnur er metnaðarfullur og hefur náð langt í sínu fagi.“

Baltasar hefur einu sinni áður leikið í mynd eftir sjálfan sig, lítið hlutverk í 101 Reykjavík, og kunni ekki vel við þá reynslu. „En tímarnir breytast og mennirnir með og nú líður mér miklu betur með þetta. Sagan er líka sögð frá sjónarhóli persónu Finns sem gerir þetta í raun auðveldara. Ég er hvort sem er að segja söguna, sem leikstjóri,“ útskýrir hann.

Eðli málsins samkvæmt er það meiri vinna og álag að leika aðalhlutverkið samhliða leikstjórninni og Baltasar viðurkennir að það hægi stundum á tökuferlinu. „Ég þarf að gefa mér tíma til að skoða og gagnrýna minn eigin leik.“

Spurður hvort það sé erfitt hristir Baltasar höfuðið. „Nei, í raun ekki. Ég er orðinn svo sjóaður í þessum bransa. Þess utan þarf leikarinn alltaf að hlusta á sjálfan sig. Ég hefði þó alls ekki viljað leika aðalhlutverk þegar ég var að gera mínar fyrstu myndir. Kvikmyndagerð er hópíþrótt og ég er með margt gott fólk með mér hérna sem veitir mér aðhald.“

Nú kemur ung stúlka skyndilega aðvífandi og fjarlægir einhverja læknagræju sem Baltasar var með um hálsinn. „Talandi um að bjarga dóttur sinni. Þetta er dóttir mín, Sóllilja,“ segir hann stoltur en hún starfar við myndina. „Nær er þó að segja að hún sé að bjarga mér. Hvers vegna ertu að taka þessa græju?“

Hann er lítið eitt hissa.

„Vegna þess að hún kostar sjö hundruð þúsund,“ svarar Sóllilja ákveðin. Eins gott að karlinn sé ekki að rogast um með slíka byrði.

Meiri samskipti?

Nú smeygir Golli ljósmyndari sér óvænt inn í samtalið og spyr Baltasar eftirfarandi spurningar: „Dóttir þín vinnur við þessa mynd og sonur þinn, Baltasar Breki, leikur í Ófærð. Er þetta þín leið, mjög upptekins manns, til að hafa meiri samskipti við fjölskylduna?“

Hér er skemmtilega spurt og Baltasar brosir.

„Það væri margt vitlausara en svarið er samt nei. Sonur minn fór bara í prufu fyrir Ófærð og þótti okkur Sigurjóni Kjartanssyni hann smellpassa í hlutverkið. En auðvitað er það bónus að geta varið tíma með börnunum sínum á sama tíma og maður er að vinna.“

Baltasar vonast til að Eiðurinn verði frumsýndur síðar á þessu ári hér heima. Mikill áhugi er fyrir myndinni og m.a. eru Film 4 í Bretlandi og ZDV í Þýskalandi meðframleiðandur. Einnig hafa borist tilboð í hana frá mörgum öðrum svæðum. „Ég hef alltaf jafnmikinn áhuga á íslenskum veruleika og að koma honum á framfæri erlendis. Þessi mynd er enn eitt skrefið á þeirri vegferð.“

Vatnsnotkun datt niður

Annað skref myndi vera sjónvarpsserían Ófærð en tveir síðustu þættirnir í henni eru á dagskrá Ríkissjónvarpsins um helgina.

Baltasar er í skýjunum með viðtökurnar sem Ófærð hefur fengið. Serían mælist með 60% meðaláhorf hér á landi sem á sér engin fordæmi þegar kemur að íslenskum framhaldsþætti. „Og það þegar áhorf á fréttir hefur dregist saman um helming og línuleg dagskrá átti að vera dauð. Merkileg þótti mér líka fréttin um að vatnsnotkun landsmanna dytti niður meðan Ófærð er í sjónvarpinu. Það staðfestir auðvitað þetta mikla áhorf. Það að fólk haldi í sér á meðan þáttur er sýndur eru mikil meðmæli!“ Það er ekki bara horft, það er líka talað. „Það eru allir að tala um Ófærð og velta fyrir sér hver sé morðinginn. Mér var boðinn afsláttur í kjörbúð um daginn ef ég ljóstraði upp um morðingjann.“

– Og tókstu því góða boði?

„Nei,“ svarar Baltasar hlæjandi. „Svo ódýr er ég ekki.“

Síðan þagnar hann og horfir í augun á mér. „Annars skal ég koma með játningu hér og nú!“

– Ha?

„Já, ég gerði þetta!“

– Gerðir hvað?

„Skipulagði morðin.“

Þú meinar! Því verður sannarlega ekki mælt í mót.

Twin Peaks, Agatha Christie og norrænt „noir“

Hann upplýsir að takmarkið með Ófærð hafi verið að búa til stemningu á Íslandi eins og myndaðist kringum Twin Peaks-þættina hans Davids Lynch fyrir um aldarfjórðungi. „Ég sé ekki annað en að það hafi tekist sem er ákaflega ánægjulegt.“

Hann segir morðgátur alltaf leik við formið. Hver gerði þetta-elementið vegi alltaf þungt og höfði til einnar af frumhvötum okkar mannanna – forvitninnar. „Í einum dómi var sagt að Ófærð væri blanda af Agöthu Christie og norrænu „noir“. Það er ekki lítið komplíment.“

Ófærð var ekki bara hugsuð sem íslensk framleiðsla eingöngu heldur einnig til útflutnings og segir Baltasar það markmið einnig hafa gengið eftir. Sýningarrétturinn hefur verið seldur til yfir þrjátíu landa, allt frá Noregi til Mongólíu, og sýningar þegar hafnar víða.

„Við létum okkur dreyma um að feta í fótspor dönsku þáttanna, Brúarinnar, Glæpsins og þeirra þátta, og það virðist ætla að rætast. Viðtökur hafa verið frábærar á öllum svæðum sem búið er að frumsýna á. Nú er einungis búið að frumsýna í Noregi, Bretlandi og Frakklandi. Við höfum verið að fá frábæra dóma í blöðum eins og Guardian og Telegraph og áhorfið lýgur ekki. Það eru sjö milljónir manna að horfa á Ófærð úti um allan heim sem er örugglega meira áhorf en allt annað sjónvarpsefni sem hefur verið framleitt á íslensku hefur fengið samanlagt hingað til. Gera menn sér grein fyrir þessu? Miklu grettistaki hefur verið lyft í gerð sjónvarpsefnis á Íslandi.“

Spurður um fjárhagshlið verkefnisins segir Baltasar suma halda að Ríkissjónvarpið hafi borgað brúsann. „Það er mikill misskilningur. RÚV borgar ekkert meira fyrir Ófærð en aðra þætti. Fjármögnun kemur að stórum hluta utan úr heimi, auk þess sem ég tók sjálfur fjárhagslega áhættu.“

– Mun sú áhætta borga sig?

„Það lítur út fyrir það, já.“

Ófærð er ekki hafin yfir gagnrýni og Baltasar er fullkunnugt um að ekki hafa öll skrif hér heima um þáttinn verið jákvæð. „Það hafa einhverjir verið að kvarta á Facebook. Svo skrifaði einhver gaur í blaðið hjá ykkur,“ segir Baltasar og á þar líklega við Ljósvakapistla Benedikts Bóasar blaðamanns.

„Það var ekki skrifað á mjög faglegum forsendum. Auðvitað er alltaf skemmtilegra þegar menn eru að gagnrýna harðlega að gagnrýnin sé ekki meinfýsin heldur málefnaleg. Annnars verða menn að fá að presentera sjálfa sig eins og þeir vilja, þeir standa síðan og falla með því.“

Annars kveðst hann ekki nenna að elta ólar við einstök skrif en ítrekar þó að konseptið sé að bærinn sem sagan gerist í sé óræður, hvorki Siglufjörður né Seyðisfjörður, enda þótt útitökur hafi að miklu leyti farið fram þar. „Einhverjir hafa verið að pirra sig á því að ófært sé svona lengi í einu til Siglufjarðar. Ég hélt að Íslendingar væru komnir yfir það að hengja sig í smáatriði í stað þess að horfa á stóru myndina. Útlendingar virðast alla vega ekkert vera að pæla í þessu. Að gefnu tilefni vil ég líka taka fram að það þarf heimild frá Danmörku til að leita í dönskum skipum enda þótt ekki þurfi heimild til að kyrrsetja þau. Það ruglast margir á þessu.“

Önnur móðuharðindi

Spurður um næstu verkefni Rvk Studios nefnir Baltasar fyrst dramaþætti með dulúðlegu Kötlu sem eru á teikniborðinu. „Við Óli Egils og Sigurjón Kjartansson erum að skrifa handritið núna, en ég kom meira að hugmyndavinnunni. Katla á sér stað þegar Kötlugos hefur staðið í tvö ár og þar veltum við fyrir okkur hvað gæti gerst ef móðuharðindin legðust aftur yfir landið í samtímanum.“

Hann upplýsir einnig að líklegt sé að ráðist verði í gerð Ófærðar 2. „Mér sýnist viðbrögðin við fyrstu seríunni kalla á það. Við erum nú þegar komnir með ákveðnar hugmyndir að söguþræði.“

Af öðrum verkefnum framundan hjá Rvk Studios nefnir Baltasar víkingamyndina sína og Sjálfstætt fólk. Þá styttist í fyrstu mynd Barkar Sigþórssonar, sem hefur vinnuheitið Burðardýr eða Mules.

Sjálfur veit hann ekki hvað hann tekur sér næst fyrir hendur. „Ég ætla að byrja á því að taka mér smá leyfi. Síðan sjáum við bara til. Erlendis gæti næsta verkefni verið Cascade með Cate Blanchett, sú mynd er í þróun. Eða eitthvað allt annað. Úr nógu er að velja!“

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka