Mjólkursamsölunni ekki treystandi

Mjólkursamsalan.
Mjólkursamsalan. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er mjög alvarlegt þegar þessu er þannig fyrir komið að nú er allt verðlagningavald farið til Mjólkursamsölunnar. Á sama tíma er Mjólkursamsalan þó ekki færð undir samkeppnislög þar sem að hún þyrfti þá að sæta eftirliti um verðlagningu sína og viðskiptahætti af hálfu Samkeppniseftirlitsins eins og öll önnur fyrirtæki á markaði,“ segir Ólafur M. Magnússon, forstjóri mjólkurbúsins KÚ í samtali við mbl.is.

Hann segir að með nýja búvörusamningnum hafi Mjólkursamsalan það í hendi sér hvernig afkoma og afdrif samkeppnisfyrirtækja sinna verði og að í samningnum felist málamyndaútgáfa sem sé í raun útþynnt útgáfa af verðlagsnefnd til þess að blessa og stimpla ákvarðanir Mjólkursamsölunnar um verðlagningu.  

„Sagan segir okkur hvernig þeim fyrirtækjum sem hafa reynt að keppa við Mjólkursamsöluna hefur vegnað í gegnum tíðina. Þau hafa öll lotið í lægra gras. Nú standa yfir rannsóknir Samkeppniseftirlitsins á meintum brotum Mjólkursamsölunnar, alvarlegum brotum og ítrekuðum. Jafnframt hefur eftirlitsstofnun EFTA tekið málið til skoðunar vegna alvarleika þess.“

Dauðadómur fyrir samkeppnisaðila 

Hann segir grafalvarlegt að stjórnvöld skuli láta málið ganga fram með þeim hætti að Mjólkursamsalan sé enn undanþegin samkeppnislögum og í rauninni felist í því dauðadómur fyrir fyrirtæki í samkeppni við Mjólkursamsöluna.

„Mjólkursamsalan hefur ekki sýnt að henni sé treystandi á þessu sviði. Við getum ekki verið sátt við þetta fyrirkomulag þar sem að okkar framtíð er algjörlega í höndum Mjólkursamsölunnar og menn þekkja söguna og dæmin þar.“  

Ólafur segir samninginn stórt áfall þar sem að hann hafi trúað því að með nýjum samningi yrði viðskiptaumhverfið í mjólkuriðnaði fært í nútímahorf með því að færa Mjólkursamsöluna undir samkeppnislög og með því að afleggja opinbera verðlagningu. Þá telur hann samninginn ekki síst alvarlega aðför að íslenskum neytendum sem verði nú gert að greiða rangar ákvarðanir stjórnenda Mjólkursamsölunnar fullu verði í formi stórhækkaðs vöruverðs.

Í fréttakynningu frá KÚ mjólkurbúi segir að nýi samningurinn sé alvarleg aðför að rekstri sjálfstæðra afurðastöðva í mjólkuriðnaði og að íslenskum neytendum. Sérstaklega í ljósi eftirfarandi atriða í samningnum:

  1. Mjólkursamsölunni er fært allt verðlagningarvald samkvæmt 12. gr. samningsins á sama tíma og greinin fær stóraukin framlög úr ríkissjóði og hagsmunir neytenda eru á engan hátt tryggðir. Hagsmunum sjálfstæðra afurðastöðva er algjörlega kastað fyrir róða með þessu fyrirkomulagi og MS hefur því í hendi sér afkomu og afdrif þessara fyrirtækja.

  2. Slegið er skjaldborg um undanþágur Mjólkursamsölunnar frá Samkeppnislögum um leið og henni er fært allt verðlagningarvald á mjólkurvörum. Það er mjög undarlegt þar sem MS er til rannsóknar af hálfu Samkeppniseftirlitsins og jafnframt Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) fyrir alvarleg og ítrekuð brot á samkeppnislögum.

  3. Í 13.gr samningsins gefa Landbúnaðar- og fjármálaráðherra jafnframt fyrirheit að unnið verið að því að hækka tolla á innfluttar landbúnaðarafurðir. Það er beinlínis unnið gegn hagsmunum neytenda og mun koma í veg fyrir alla erlenda samkeppni.

  4. Í raun er verðlagsnefnd ekki lögð niður heldur er hún nú kölluð „opinber aðili“ í samningnum. Er henni nú ætlað að leggja blessun sína og stimpla ákvarðanir MS. Það vekur upp áleitnar spurningar þegar Mjólkursamsalan sem er með yfir 98% markaðshlutdeild á íslenskum mjólkurvörumarkaði skuli ekki treysta sér að starfa undir eftirliti þess aðila sem hefur eftirlit með verðlagningu og viðskiptaháttum allra annarra fyrirtækja á markaði þ.e. Samkeppniseftirlitinu.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert