„Reynum að takmarka skaðann“

Áfengi
Áfengi mbl.is/Heiðar Kristjánsson

Hlynur Davíð Löve, útskriftarefni læknadeildar Hafnarháskóla, hvetur Alþingi eindregið til að leyfa ekki sölu áfengis í matvöruverslunum enda bendi rannsóknir til þess að það myndi stuðla að aukinni áfengisneyslu og vandamálum samfara henni.

Útskriftarritgerð Hlyns Davíðs Löve við læknadeild Hafnarháskóla fjallar um mynstur áfengistengdra sjúkdóma og dauðsfalla, og lífslíkur í Danmörku, Svíþjóð og Íslandi. Að auki tók ritgerðin einnig afstöðu til löggjafar og reglna í hverju landi og hvernig áhrif þær hefðu á sölu og neyslu áfengis, og síðar áfengistengda sjúkdóma og dauðsföll. Leiðbeinandi Hlyns var prófessor í faraldsfræði en hann skoðaði rannsóknir frá ýmsum löndum, þó aðallega danskar og sænskar rannsóknir, nokkra áratugi aftur í tímann.

Löggjöfin ströngust á Íslandi

Niðurstöður Hlyns reyndust þær að reglugerðir og löggjöf þegar kom að aðgengi áfengis var mildust í Danmörku en ströngust á Íslandi. Danmörk var landa hæst þegar kom að sölu og neyslu áfengis, Svíþjóð í öðru sæti og Ísland í þriðja. Nýgengi og algengi flestra þeirra sjúkdóma sem tengja má beint við áfengisneyslu var þar að auki hæst í Danmörku, Svíþjóð var aftur í öðru sæti og Ísland í þriðja. Lífslíkur reyndust mestar á Íslandi, næst mestar í Svíþjóð en minnstar í Danmörku.

Allar rannsóknir nema ein sem skoðaðar voru, þar með taldar rannsóknir Svía á laugardagsopnun einkareknu áfengisverslana þeirra, Systembolaget, og sölu á meðalsterkum og sterkum bjór í matvöruverslunum, sýndu fram á að aukið aðgengi að áfengi leiddi til umtalsverðrar aukningar í sölu og neyslu áfengis sem, að lokum, hafði í för með sér aukningu á áfengistengdum sjúkdómum og dauðsföllum, sem og öðrum áfengistengdum skaða, með tilheyrandi kostnaði og álagi á heilbrigðiskerfinu og samfélaginu í heild.

Hlynur bendir á, að Svíar hafi leyft sölu á sterkum bjór í matvöruverslunum í tilraunaskyni í 1 ár í kringum 1970 og strax í kjölfarið sást aukning í sölu og neyslu á þeim tilteknu tegundum og var þeirri tilraun hætt 4 mánuðum áður en áætlað var sökum þess. „Sjö af átta rannsóknum sem ég vitna í ber saman um að aukið aðgengi að áfengi leiði til meiri sölu,“ segir Hlynur.

Yrði ekki til góðs

Hann segir enga ástæðu til að ætla að annað myndi gerast hér. „Ég hef lesið frumvarpið, sem nú liggur fyrir Alþingi, um að heimila sölu á bjór og léttvíni í matvöruverslunum. Menn fara að vísu ekki alltof langt fram úr sjálfum sér þar, allri áfengissölu á til dæmis að vera lokið klukkan átta á kvöldin, en það breytir því ekki að breyting á löggjöfinni í þessa átt yrði ekki til góðs. Þá tala ég sem verðandi starfsmaður íslenska heilbrigðiskerfisins,“ segir Hlynur og bætir við að nægur sé vandinn fyrir í fjársveltu kerfi. „Er ekki óþarfi að bæta við vandamáli sem auðveldlega má komast hjá?“

Stöndum okkur vel

Hann ítrekar að við Íslendingar stöndum afar vel að vígi gagnvart frændum vorum Dönum og Svíum. „Við erum að standa okkur mjög vel í baráttunni gegn afleiðingum áfengisneyslu. Skorpulifur og krónísk brisbólga eru til dæmis mun sjaldgæfari hér en í samanburðarlöndunum. Það létust aðeins sex einstaklingar úr krónískri brisbólgu á þrettán ára tímabili og mun færri deyja hérlendis úr skorpulifur. Þá lést enginn af völdum ölvaðs ökumanns á Íslandi árin 2012 og 2104 – sem er einstök tölfræði.“ Hlynur skoðaði líka skattalækkanir á áfengi og segir þær hafa sömu afleiðingar og betra aðgengi; salan aukist.

Málið snýst ekki um einkavæðingu

Frá sjónarhóli Hlyns snýst málið ekki um það hvort menn séu með eða á móti einkavæðingu. „Sjálfur er ég tiltölulega frjálshyggjuþenkjandi og hef ég ekkert á móti einkavæðingu út af fyrir sig. Mín vegna mætti alveg einkavæða áfengissölu á Íslandi, svo lengi sem varan er seld í sérstökum verslunum. Það er aðalatriðið. Það kann ekki góðri lukku að stýra að blanda áfengi saman við aðrar vörur í verslunum. Höldum þessu í sem fæstum verslunum og út af fyrir sig til að takmarka skaðann!“

Hlynur Davíð Löve
Hlynur Davíð Löve
Flestallar rannsóknir benda til þess að aukið aðgengi að áfengi …
Flestallar rannsóknir benda til þess að aukið aðgengi að áfengi auki sölu og neyslu áfengis sem leiðir til aukningar á áfengistengdum sjúkdómum og dauðsföllum. AFP
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert