Sennilega voru fleiri saman komnir í Hamraborg í gær, stóra salnum í menningarhúsinu Hofi á Akureyri, en nokkru sinni fyrr. Setið var í hverju sæti salarins auk þess sem margir stóðu og á sviðinu voru á fjórða hundrað tónlistarmenn!
Tilefnið var 70 ára afmælis Tónlistarskólans á Akureyri auk þess sem í leiðinni var haldið upp á Dag tónlistarskólanna - með mjög skemmtilegum tónleikum.
Á fjórða hundrað nemendur Tónlistarskólans á Akureyri voru á sviði ásamt akureyrsku hljómsveitinni 200.000 naglbítum, þar sem flutt voru lög sveitarinnar í bland við fleira skemmtilegt. Þremenningarnir í hljómsveitinni eru Vilhelm Anton Jónsson - sjaldnast kallaður annað en Villi naglbítur, gítarleikari og söngvari, bróðir hans Kári Jónsson, bassaleikari og söngvari, og Benedikt Brynleifsson trommuleikari. Daníel Þorsteinsson, kennari við skólann, útsetti öll lögin og stjórnaði hópnum.