Ísland stærra en Melarnir í Vesturbænum

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra. mbl.is/Golli

Forsætisráðherra segir fráleitt að stilla málum þannig upp að allt fjármagn sem sett sé í menntastofnanir eða aðra innviði á landsbyggðinni sé tekið af þeim sem starfa í „101 Reykjavík“. Uppbygging á landsbyggðinni gagnist Reykjavík og öfugt. 

„Ísland er eitt land og það er stærra en Melarnir í Vesturbænum,“ skrifar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra á Facebooksíðu sína.

Tilefni skrifanna er gagnrýni „fyrrverandi ráðherra síðustu ríkisstjórnar“ og „samherja hans“ sem hafa brugðist illa við ummælum Sigmundar að það væri mikilvægt að veita fjármagni í menntastofnanir um allt land. Telja verður líkleg að Sigmundur sé að vísa í ummæli Gylfa Magnússonar, sem var viðskiptaráðherra 2009 til 2010 í ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna. 

Óhjákvæmileg þróun eða alræðistilburðir

„Eins og menn geta rifjað upp hér á síðunni benti ég á að ef menntastofnanir á landsbyggðinni muni ekki treysta sér í sameiningar eða samstarf við HÍ muni þurfa að veita fjármagni til þeirra á eigin forsendum fremur en að ríkið setji slíkt samstarf sem skilyrði fyrir fjárveitingum. Þetta mætti kalla að benda á hið augljósa.

Það nægði þó ráðherranum fyrrverandi og þremur facebook vinum hans til að verða „æfir“, svo vitnað sé í fréttina, og senda frá sér furðulegar yfirlýsingar á borð við að þetta fæli í sér hótanir í garð HÍ og minnti á stjórnarfar í alræðisríkjum!

Ef starfsemi er færð af landsbyggðinni til Reykjavíkur er það kallað eðlileg eða óhjákvæmileg þróun. Ef stutt er við starfsemi á landsbyggðinni kallast það alræðistilburðir,“ skrifar ráðherra.

Viðhorfið að landsbyggðarfólk eigi bara að sjá um að veiða fisk

Þá segir hann, að það væri vart hægt að finna betri áminningu um mikilvægi þess að standa vörð um menntun á landsbyggðinni en þessi viðhorf og ofsafengnu viðbrögð við einfaldri ábendingu um mikilvægi þess að efla menntun um allt land.

„Viðhorfið virðist vera það að landsbyggðarfólk eigi bara að sjá um að veiða fisk og skila svo tekjunum í tvö póstnúmer í Reykjavík,“ skrifar hann.

Þá bendir hann á, að ríkisstjórnin hafi stutt við bakið á Háskóla Íslands og einnig aukið framlög til vísinda og rannsóknarstarfa meira en dæmi séu um. Yfirgnæfandi hluti þeirra framlaga hafi farið á höfuðborgarsvæðið.

Áram stutt við HÍ og aðrar menntastofnanir

„Við munum áfram styðja við Háskóla Íslands og aðrar menntastofnanir í Reykjavík. En það veitir ekki af því að styðja líka við bakið á menntun utan höfuðborgarinnar og ég vona að það raski ekki ró fjórmenninganna í „Akademíunni“ enn frekar ef ég bendi á að það sama á við um heilbrigðismál, samgöngumál, stjórnsýslu og jafnvel fleira.

Það er fráleitt að stilla málum þannig upp að allt það fjármagn sem sett er í menntastofnanir eða aðra innviði á landsbyggðinni sé tekið af þeim sem starfa í 101 Reykjavík. Uppbygging á landsbyggðinni gagnast Reykjavík og öfugt. Ísland er eitt land og það er stærra en Melarnir í Vesturbænum.“

Fyrrverandi ráðherra síðustu ríkisstjórnar og fáeinir samherjar hans (sem vilja þó líklega allir láta kalla sig óháða sé...

Posted by Sigmundur Davíð Gunnlaugsson on 22. febrúar 2016
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert