Landsvirkjun annar ekki heildarspurn iðnaðar á Íslandi eftir raforku eins og staðan er í dag. Þetta kom meðal annars fram í máli Harðar Arnarssonar, forstjóra Landsvirkjunar, á kynningarfundi fyrir blaðamenn og aðila í viðskiptalífinu í morgun.
Mbl.is: Hefur aldrei selt meiri raforku
Þessi staða væri mjög sérstök miðað við aðstæður í heiminum í dag þar sem lítið væri um fjárfestingar og orkuverð lág. Þetta væri að hluta til vegna þess að fyrirtækið væri að bæta of litlu af framboði inn í kerfið þrátt fyrir að hafa bætt þónokkru inn í það. „En við erum að sjá meiri eftirspurn heldur en við höfum séð áður á Íslandi. Í mikilli niðursveiflu á alþjóðamörkuðum. Það í raun og veru staðfestir algerlega okkar samkeppnishæfni,“ sagði Hörður. Sumir vildu meina að Landsvirkjun væri þar með að verðleggja sig of hátt en þegar staðan væri þannig að eftirspurn væri meiri en framboð myndu flest markaðslögmál segja að verðið væri frekar of lág.
Frétt mbl.is: Gagnaverin komin til að vera
Markmið Landsvirkjunar væri að bjóða samkeppnishæf kjör á raforku með langtímasamningum, hagstæðu verði og miklu afhendingaröryggi. Eftirspurnin væri fjölbreytt, bæði frá litlum og meðalstórum fyrirtækjum og almennt á markaðinum. Sú staða, að meiri eftirspurn væri eftir orku en Landsvirkjun gæti framleitt, hefði ekki komið upp áður á Íslandi. „Ég held að það væri alveg sama hvað við gætum virkjað mikið. Það væri meiri eftirspurn en við gætum mætt.“
Hörður sagði Landsvirkjun hafa verið að reyna að mæta þessari eftirspurn innan þess ramma sem fyrirtækinu væri settur.