Kólumbískum mæðgum, sem Útlendingastofnun neitaði um hæli hér á landi, var í dag tilkynnt að þeim verði vísað úr landi. Lögfræðingur þeirra, Úlfar Freyr Jóhannsson, segir að þeim hafi þó ekki verið gefið upp hvenær þær þurfi að yfirgefa landið. „Þeir setja ekki upp einhvern tímaramma og veita engar frekari upplýsingar, fólki er bara haldið og látið bíða,“ segir Úlfar í samtali við mbl.is.
Um er að ræða kólumbíska konu og dætur hennar tvær, en þær hafa verið á flótta í fimmtán ár. Þær komu fyrst til landsins frá Spáni í september árið 2014. Konan sótti um hæli fyrir sig og dætur sínar við komuna en Útlendingastofnun hefur aldrei tekið hælisumsókn þeirra til efnismeðferðar. Sóttu þær um hæli sem pólitískir flóttamenn hér á landi og nutu aðstoðar Rauða krossins.
Stúlkurnar hafa gengið í skóla í Keflavík frá því í febrúar í fyrra, sú eldri í Fjölbrautaskóla Suðurnesja en sú yngri í grunnskóla. Þar hafa þær eignast vini og una sér vel í fyrsta skipti eftir mörg erfið ár.
En í morgun var þeim tilkynnt að þeim skuli vera vísað úr landi og sendar aftur til Spánar. Eins og kom fram á mbl.is í gær fyllir sú tilhugsun þær kvíða en þar lifðu þær í ótta við ógnanir sem fylgdu þeim alla leið frá heimalandinu auk þess sem stúlkurnar tvær, sem eru 10 og 18 ára gamlar, urðu fyrir einelti í skóla.
Úlfar segir fregnirnar að þær eigi að fara aftur til Spánar reyna gríðarlega á dætur konunnar þar sem þær eru hér í skóla og líður vel. Einnig er það erfitt fyrir þær að vita ekki nákvæmlega hvenær þær þurfi að yfirgefa landið.
Mæðgunum var neitað um hæli á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar en að sögn Úlfars hefur mál þeirra í raun og veru aldrei fengið efnislega meðferð hér á landi þrátt fyrir að hafa verið hér á landi í allan þennan tíma.
Að sögn Úlfars er ekki hægt að kæra ákvörðunina um að þeim verði vísað á brott en hægt er að kæra ákvörðunina um að þeim sé ekki veitt heimild til að fá efnismeðferð í málinu. „Það er hægt að kæra úrskurðinn kærunefndar sem slíkan og ógilda hann og óska þess að málið verði tekið upp til formlegrar meðferðar,“ segir Úlfar en ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort að það verði gert.
Hann segir ekki öruggt fyrir mæðgurnar að fara til Spánar og þar bíður þeirra sama óvissa og hér. „Það er mjög erfið staða á Spáni í þessum málum. Það er óvíst að málið þeirra verði tekið til efnismeðferðar á Spáni þannig að þær eru í sömu stöðu þar og hér. Nema að hér eru þær búnar að vera hér í næstum því tvö ár og búnar að ná tengslum við landið.“