Tíu þingmenn hafa lagt fram frumvarp á Alþingi til breytinga á lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög en yfirlýst markmið þess er að koma í veg fyrir kennitöluflakk. Fyrsti flutningsmaður er Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokksins, en meðflutningsmenn koma úr Samfylkingunni, Bjartri framtíð og frá Pírötum auk Framsóknarflokksins.
Breytingarnar fela í sér að stofnendur, stjórnarmenn og framkvæmdastjórar hlutafélaga geti ekki á síðustu þremur árum hafa verið í forsvari fyrir tvö eða fleiri félög sem orðið hafa gjaldþrota. „Hér undir fellur einnig það þegar stofnendur, stjórnarmenn eða framkvæmdastjórar hafa hætt störfum áður en félag verður gjaldþrota og það fært undir stjórn svokallaðra útfararstjóra sem ganga með fyrirtækið í gjaldþrot. Um hæfisskilyrði er að ræða sem einstaklingar, sem ætla að stofna fyrirtæki, gerast stjórnarmenn eða eru ráðnir sem framkvæmdastjórar, þurfa að uppfylla.“
Bent er ennfremur á í greinargerð að starfshópur á vegum ríkisskattstjóra hafi á undanförnum árum kannað umfang skattaundanskota í atvinnustarfsemi hér á landi. „Niðurstaða þeirrar könnunar er að um 80 milljarða kr. vanti upp á þær skatttekjur sem umsvif í þjóðfélaginu gefa vísbendingar um hverjar ættu að vera. Um miklar fjárhæðir er að ræða sem skiptu ríkissjóð miklu máli ef þær mundu innheimtast og þó ekki væri nema hluti þeirra. Ýmsar lagabreytingar hafa verið gerðar á síðustu árum með það að markmiði að sporna við kennitöluflakki en þrátt fyrir þær er háttsemin enn við lýði og því ljóst að þær lagabreytingar hafa ekki náð tilgangi sínum fyllilega.“