Börn og unglingar geta þurft að bíða í allt að eitt og hálft ár eftir nauðsynlegri geðheilbrigðisþjónustu. Ríkisendurskoðun telur þetta óviðunandi. Auk þess að ganga gegn lögbundnum skyldum ríkisins stefnir þessi langa bið bæði langtímahagsmunum þess og velferð einstaklinga í tvísýnu.
Stofnunin hvetur stjórnvöld til að skilgreina hlutlæg viðmið um biðtíma eftir þjónustunni. Fjallað er um málið á vef Ríkisendurskoðunar.
Í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar er fjallað um geðheilbrigðisþjónustu við börn og unglinga. Ýmsir aðilar á mismunandi stjórnsýslustigum sinna þessari þjónustu en kerfið skiptist í þrjú þjónustustig: grunn-, ítar- og sérþjónustu. Grunnþjónustan sinnir m.a. forvarnarstarfi, fræðslu og tilfellum sem kalla ekki á róttæk inngrip. Hluti barna þarf á ítarþjónustu að halda og í alvarlegustu tilfellunum verður að leita eftir sérþjónustu. Ætla má að á tímabilinu 2010‒14 hafi ríkissjóður að meðaltali varið allt að 2,7 milljarða kr. á ári til geðheilbrigðismála barna og unglinga fyrir utan kostnað grunnþjónustunnar.
Jafnframt bendir Ríkisendurskoðun á að raunveruleg þörf barna og unglinga hér á landi fyrir ítar- og sérþjónustu hefur ekki verið metin. Ríkisendurskoðun hvetur velferðarráðuneyti til að meta þessa þörf og ákveða hvernig henni verið best mætt með skipulögðum hætti.
Fram kemur í skýrslunni að eftirspurn eftir þjónustu stofnana sem sinna geðheilbrigðismálum barna og unglinga hefur stóraukist undanfarin ár. Samhliða hefur biðtími eftir þjónustunni lengst. Síðla árs 2015 biðu rúmlega 390 börn eftir þjónustu Þroska- og hegðunarstöðvar sem starfar á vegum Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins en þjónar öllu landinu, 120 voru á biðlista göngudeildar Barna- og unglingageðdeildar Landspítala (BUGL) og 208 biðu eftir þjónustu Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins. Biðtíminn getur orðið allt að eitt og hálft ár.
Að mati Ríkisendurskoðunar er sá langi biðtími sem einkennt hefur geðheilbrigðisþjónustu barna og unglinga óviðunandi. Auk þess að ganga gegn lögbundnum skyldum ríkisins stefnir þessi bið bæði langtímahagsmunum þess og velferð einstaklinga í tvísýnu. Ef ekki er tekið á markvissan hátt á geðheilsuvanda barna og unglinga um leið og hans verður vart aukast til muna líkur þess að þungbærar og langvarandi afleiðingar, jafnvel örorka, komi síðar fram. Stofnunin hvetur velferðarráðuneytið til að skilgreina og innleiða hlutlæg viðmið um biðtíma barna og unglinga sem þarfnast þjónustu vegna geðheilsuvandamála.
Sveitarfélögin gegna lykilhlutverki í þjónustu við börn og unglinga sem glíma við geðheilsuvanda. Skýr verkefna- og ábyrgðarskipting milli stjórnsýslustiga er forsenda þess að tekið sé á geðheilsuvanda barna og unglinga á árangursríkan hátt. Ríkisendurskoðun hvetur velferðarráðuneyti til að vinna náið með sveitarfélögunum og öðrum stjórnvöldum að því að tryggja að sveitarfélögin geti sinnt verkefnum sem lúta að geðheilsu barna og unglinga.