Vilja kynfræðslu í stað kynhræðslu

Fulltrúar Reykjavíkurráðs ungmenna ásamt borgarfulltrúunum sem sátu fundinn í dag.
Fulltrúar Reykjavíkurráðs ungmenna ásamt borgarfulltrúunum sem sátu fundinn í dag. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

8 fulltrúar frá Reykjavíkurráði ungmenna funduðu með borgarstjórn í Ráðhúsi Reykjavíkur í dag. 

Fundurinn er liður í árlegu starfi Reykjavíkurráðs, sem hefur starfað frá árinu 2002. Markmið ráðsins er meðal annars að skapa vettvang og leiðir til þess að gera þeim sem eru yngri en 18 ára kleift að koma skoðunum sínum og tillögum á framfæri við og þjálfast í lýðræðislegum vinnubrögðum. Reykjavíkurráð ungmenna er jafnframt samráðsvettvangur allra ungmennaráða sem starfa í borginni.

Til umfjöllunar á fundinum voru 8 tillögur frá ungu fólki í Reykjavík um það sem að þeirra mati má betur fara í borginni.

„Það er gleði og ánægja að fá að vera með ykkur á þessum fundi,“ sagði Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í upphafi fundarins.

Afþreyingarmiðstöð, sálfræðiaðstoð og ungmennamálþing

Meðal tillaga sem kynntar voru á fundinum voru afþreyingarmiðstöð við Rauðavatn, stuðningsnet jafnaldra fyrir börn og unglinga af erlendum uppruna, regluleg ungmennamálþing um málefni sem snerta þau og bætt aðgengi að sálfræðiaðstoð fyrir unglinga.

Ágúst Beinteinn Árnason, fulltrúi í Ungmennaráði Vesturbæjar spurði borgarfulltrúana hvað …
Ágúst Beinteinn Árnason, fulltrúi í Ungmennaráði Vesturbæjar spurði borgarfulltrúana hvað væri mikilvægara en að fá hugmyndir um ungt fólk frá ungu fólki? Tillaga hans snerist um að halda regluleg málþing ungmenna um málefni sem snerta þau. Ljósmynd/Reykjavíkurborg


Tvær af tillögunum fjölluðu um bætta kynþroskafræðslu í grunnskólum. Einnig var lagt til að kenna hana fyrr en nú er ásamt því að kynfræðslutímum verði fjölgað. Auk þess var lagt til að dömubindi, túrtappar og smokkar verði aðgengilegri fyrir ungmenni.

Sóley Tómasdóttir, forseti borgarstjórnar, viðurkenndi í svari sínu til Karitasar Bjarkadóttur, fulltrúa í Ungmennaráði Grafarvogs, að borgarstjórn hefði ekki staðið sig nægilega vel í að stuðla að aukinni kynfræðslu og kynþroskafræðslu í skólum og baðst afsökunar á því.

„Þessi tillaga er mjög mikilvæg og við verðum að taka það til okkar að ungmenni komi hingað ár eftir ár,“ sagði Sóley.  

Karitas Bjarkadóttir, fulltrúi í Ungmennaráði Grafarvogs, lagði til að skóla- …
Karitas Bjarkadóttir, fulltrúi í Ungmennaráði Grafarvogs, lagði til að skóla- og frístundaráð sjái til þess að innan árs verði kynþroskafræðsla í grunnskólum betri og hún kennd fyrr en nú er, ásamt því að dömubindi, túrtappar og smokkar verði aðgengilegri fyrir ungmenni. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Tvær kynfræðslur ekki nóg

Eyrún Magnúsdóttir, fulltrúi í Ungmennaráði Laugardals og Háaleitis flutti aðra tillöguna og sagði í framsögu sinni að mikilvægt væri að Skóla- og frístundaráð beitti sér fyrir því að grunnskólar í Reykjavík bæti kynfræðslu, en ekki kynhræðslu, frá því í 6. bekk og til loka grunnskólans og fjölgi kynfræðslutímum.

Eyrún sagði í ræðu sinni að of mikil áhersla sé lögð svokallaðan hræðsluáróður í grunnskólum Reykjavíkurborgar. „Umgjörðin í kringum kynfræðslu í skólum er léleg, ég fór til dæmis bara í tvær kynfræðslur á vegum Langholtsskóla og mér finnst það bara alls ekki nóg,“ segir Eyrún í samtali við mbl.is.  

Lagði hún til að almenn umræða um kynfræðslu og kynþroskafræðslu muni hefjast á miðstigi og aukist með árunum. „Það er augljóst að fáfræði er rót allra fordóma. Það er mikið um fordóma og ranghugmyndir gagnvart kynlífi vegna lélegrar kynfræðslu, og því er ekki mikið mála að breyta, með bættri fræðlu,“ segir Eyrún.

Eyrún sagði í ræðu sinni að auka þurfi kyn- og …
Eyrún sagði í ræðu sinni að auka þurfi kyn- og kynþroskafræðslu, en ekki kynhræðslu í grunnskólum Reykjavíkurborgar. Ljósmynd/Skjáskot af vef Reykjavíkurborgar

Hildur Sverrisdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, tók til máls þegar Eyrún hafði lokið máli sínu og byrjaði á að lesa upp úr bókinni Fantasíur, sem fjallar um mismunandi kynferðislegar fantasíur kvenna, og var ritstýrt af henni sjálfri.

„Mér brá svolítið þegar Hildur tók upp bókina. Svo varð þetta bara fínt og mér fannst hún koma með mjög góð svör,“ segir Eyrún.

Með því að lesa upp úr bókinni vildi Hildur vekja athygli á að umræða um kynlíf getur verið snúin. „En hún þarf að vera það, þó hún fjalli stundum um trekant í leikkastala,“ sagði Hildur á fundinum. „En ég fagna þessari tillögu og hvet til þess að hún verði tekin til skoðunar á opinn og heiðarlegan hátt hjá Skóla- og frístundaráði.“   

Tillagan var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, tók til máls í upphafi og …
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, tók til máls í upphafi og við lok fundar. Ljósmynd/Skjáskot af vef Reykjavíkurborgar

Ungmennaráðin góður vettvangur fyrir ungt fólk

Fundur Reykjavíkurráðs með borgarstjórn er árlegur viðburður og hefur tillaga um aukna kynfræðslu í grunnskólum borgarinnar komið upp oft áður og segir Eyrún það visst áhyggjuefni.

„Það er ótrúlegt hvað lítið hefur gerst miðað við hversu oft þessi tillaga hefur komið upp, meðal annars í fyrra. Þá skrifaði ég tillöguna en flutti hana ekki sjálf. Reyndar hefur aðeins verið að vinna með hinsegin fræðslu, en það er í gegnum Samtökin ´78. Vonandi gengur það í gegn.“

Eyrún er hæfilega bjartsýn á að tillagan verði framkvæmd strax. „Satt best að segja hef ég ekki mikla trú á að kynfræðsla verði aukin á næstunni, vegna fjárhagsstöðu borgarinnar, en ég vona að það verði í forgangi því þetta er mjög mikilvægt málefni.“

Eyrún hefur starfað í Ungmennaráði Laugardals og Háaleitis í bráðum tvö ár og segir ráðið góðan vettvang til að koma skoðunum sínum á framfæri.

„Það er þægilegt og auðvelt að hafa starfsmenn með sér sem geta beint manni á réttu brautina með málefni, það er svolítið erfitt að gera þetta einn. En það er eins og með alla pólitík, það er erfitt að fá sínar tillögur í gegn, en þetta er fínn vettvangur.“  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka