Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður Vinstri-grænna, hóf umræðu um aukna viðveru bandarísks herliðs á Keflavíkurflugvelli á Alþingi. Sagði hún það talsverð tíðindi að opinbert vefrit Bandaríkjahers, þ.e. hermiðillinn Stars and Stripes, skuli hafa vakið athygli á því að Robert O. Work, aðstoðarvarnarmálaráðherra Bandaríkjanna, hefði sótt öryggissvæðið á Keflavíkurflugvelli heim á síðasta ári og tengt heimsóknina við hugleiðingar um aukna viðveru hér á landi.
„Þótt íslenskir ráðamenn segja málið ekki fréttnæmt er greinilegt að einhverjum í Pentagon [varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna] þyki svo vera,“ sagði Steinunn Þóra og benti því næst á að varnarmálaráðuneytið hafi farið fram á það sem nemur rúmlega 2,7 milljörðum króna fjárveitingu til framkvæmda á Keflavíkurflugvelli fyrir hönd bandaríska flotans.
„Það er einnig eðlilegt að skoða þessar áætlanir í samhengi við þann stóraukna viðbúnað sem Bandaríkjaher fyrirhugar í Evrópu. Bandaríkin, Rússland og Bretland eru öll að endurnýja kjarnorkuvopn sín. NATO-ríkin vinna að uppsetningu eldflaugavarnakerfa í Austur-Evrópu, sem augljóslega beinast gegn Rússum. Rússneski herinn hefur eflt viðbúnað í mörgum flotastöðvum sínum og í nokkrum grannríkjum Rússlands hafa verið settar á legg hraðsveitir sem kalla má til með skömmum fyrirvara ef til átaka kemur,“ sagði Steinunn Þóra og hélt áfram:
„Allt hnígur þetta í sömu átt - það er ákveðin spenna og vopnakapphlaup er hafið í Evrópu.“ Að mati þingmannsins er mikilvægt að nálgast þessa umræðu af „fullri alvöru“ í stað þess að „láta eins og það snúist um tímabært viðhald á gamalli flugskemmu.“
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra var næstur til að stíga í pontu. Sagði hann mikilvægt að ræða öryggis- og varnarmál með reglubundnum hætti og út frá aðstæðum hverju sinni.
„Margt hefur breyst í umhverfi og öryggismálum í Evrópu frá því að varnarliðið hvarf héðan af landi brott haustið 2006. Hryðjuverkaógnin hefur aukist, netárásir verða sífellt algengari og innlimun Rússlands á Krímskaga árið 2014 marka í raun tímamót í sögu Evrópu þegar, í fyrsta skipti frá lokum síðari heimsstyrjaldar, landamærum var breytt með vopnavaldi,“ sagði Gunnar Bragi.
Benti utanríkisráðherra á að þessi breytta mynd Evrópu nái einnig hingað til lands. „Vart verður aukinna hernaðarumsvifa, hvort heldur sem er í lofti eða á legi,“ sagði hann og hélt áfram: „Kafbátar [rússneska] norðurflotans eru að sækja út á Atlantshafið í auknum mæli og þykir, í ljósi breyttra öryggisaðstæðna í Evrópu, fyllsta ástæða til þess að fylgjast með ferðum þessara kafbáta, meðal annars frá Íslandi.“
Þá benti ráðherrann einnig á að flug rússneskra herflugvéla við Ísland hafi aukist mjög að undanförnu. Hafa rússneskar hervélar t.a.m. flogið upp að landinu alls 48 sinnum á tímabilinu 2006 til 2015 og eru umræddar vélar samtals 107 talsins.
„Þar sem þær fljúga án þess að auðkenna sig getur það skapað hættu fyrir almenna flugumferð og þá ekki síst vegna mikillar flugumferðar milli Norður-Ameríku og Evrópu í námunda við landið. Eftirlit með loftrými Íslands og loftrýmisgæslan er því nauðsynleg í þessu tilliti.“