Falleinkunn stjórnarskrárnefndar

Skúli Magnússon, (3. f.v.) ásamt öðrum meðlimum stjórnarskrárnefndar þegar hann …
Skúli Magnússon, (3. f.v.) ásamt öðrum meðlimum stjórnarskrárnefndar þegar hann átti sæti í henni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stjórnarskrárnefnd fær falleinkunn frá Skúla Magnússyni, fyrrverandi nefndarmanni, vegna þess að henni mistókst að leggja fram tillögu um framsal ríkisvalds í þágu alþjóðasamninga. Segist hann vonast til að endurupptökupróf verði til að nefndin geti hysjað upp um sig buxurnar.

Skúli, sem átti áður sæti í nefndinni og er formaður Dómarafélags Íslands, var harðorður um tillögur sem stjórnarskrárnefndin lagði fram á föstudag á fundi sem Lagastofnun Háskóla Íslands og Lögfræðingafélags Íslands hélt í dag. Lagt hafi verið upp með að nefndin fjallaði um fjögur afmörkuð mál sem afgreidd yrðu í ákveðnum farvegi. Hún hafi hins vegar aðeins skilað frumvörpum um þrjú af þessum fjórum málum og heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar virðist komin á frest.

Þá hafi nefndinni mistekist að afgreiða tillögurnar nógu hratt til að nýta bráðabrigðaákvæði um breytingar á stjórnarskrá sem gildir út þetta kjörtímabil og ekki náist að greiða atkvæði um þær samhliða forsetakosningunum í sumar. Benti Skúli á að það væri tóm vitleysa í Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta, að sú hugmynd væri andstæð stjórnskipun landsins.

Mistekist að viðhalda íslenskri stjórnskipun

Ósáttastur var Skúli þó við að nefndin hafi ekki lagt fram frumvarp sem heimili stjórnvöldum að framselja ríkisvald til alþjóðastofnana í þágu alþjóðasamninga. Skúli sagði að það mál kæmi Evrópusambandinu ekkert við og sambærileg ákvæði væri í stjórnarskrám annarra ríkja. Ísland eigi í erfiðleikum í alþjóðlegu samstarfi, ekki síst því sem kennt er við evrópska efnahagssvæðið. Skortur á slíku ákvæði sé annmarki á stjórnskipun landsins.

„Það að nefndin komi nú árið 2016 og skili ekki frumvarpi er ekki aðeins vonbrigði heldur til marks um það að nefndinni og stjórnkerfinu hafi mistekist að standa undir þeirri ábyrgð að viðhalda íslenskri stjórnskipun og leysa úr þeim göllum sem á henni eru. Að þessu leyti fær vinna nefndarinnar falleinkunn,“ sagði Skúli.

Ragnhildur Helgadóttir, prófessor og deildarforseti lagadeildar Háskólans í Reykjavík, sagðist einnig sakna ákvæðis um framsal ríkisvalds í tillögum nefndarinnar. Sagði hún brýna þörf á slíku ákvæði í stjórnarskrá.

Fyrsta skref að eignarréttarvæðingu 

Þá orðaði Skúli áhyggjur sinni af því að ákvæði um þjóðareign á náttúruauðlindum gæti stuðlað að eignarréttarvæðingu auðlinda eins og fiskveiðiheimilda þvert á markmið stuðningsmanna ákvæðisins.

Sagði hann ríkiseign á auðlindum fyrsta skrefið í átt að því að skilgreina nýtingarheimildir sem óbein eignarréttindi. Þá yrði krafa um að gerðir yrðu leigusamningar um afnot af auðlindum sem yrðu varðir af eignarréttarákvæðum. Þar með muni þrýstingur vaxa á að samningaleið verði farin í sjávarútvegi og menn muni sjá eignarréttarvæðingu í sjávarútvegi og á fleiri sviðum.

Páll Þórhallsson, formaður stjórnarskrárnefndar, sagði að tillögurnar sem nefndin lagði fram endurspegli þar sem samstaða náðist um í henni. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert