Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, segir að 140 milljarða búvörusamningur sé stórkostlegt tækifæri til framfara í landbúnaði. Illa sé farið með það tækifæri í nýja samningnum milli ríkisins og fulltrúa bænda, sem gildir til tíu ára.
Sérstakar umræður um búvörusamning fóru fram á Alþingi í dag og var Helgi Hjörvar málshefjandi. Hann sagði samninginn fela í sér úrelta niðurgreiðslupólitík og gagnrýndi að samningurinn bindi fjárútlát þingsins næstu tíu árin.
„Við þurfum miklu framfarasinnaðri landbúnaðarpólitík heldur en hér birtist,“ sagði Helgi og bætti við að það þurfi að vinda ofan af kvótakerfinu. Ekki dugi að bíða í tíu ár eftir því.
„Gallinn við þennan samning er m.a. sá að þrátt fyrir allt þetta mikla fé er ekki að sjá að rekstarskilyrði landbúnaðarins verði miklu betri í lok samningstímans en í byrjun,“ sagði hann. „Það er ekki verið að innleiða samkeppni og þau jákvæðu áhrif sem hún getur haft á greinina.“
Hann gagnrýndi einnig að víðtækari samráð hefðu ekki verið höfð þvert á flokka, við hagsmunasamtök og fleiri áður en samningurinn var gerður.
Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra , sagði að samningurinn muni m.a. efla framleiðslu á nautakjöti og styðja tímabundið við svínabændur. Einnig muni hann styðja meira en áður við lífrænan búskap og geitfjárrækt.
Hann bætti við að haft hafi verið samráð við Samtök atvinnulífsins, Neytendasamtökin, ASÍ, Viðskiptaráð, Landvernd og Náttúruverndarsamtök Íslands, auk þess sem samtal hafi verið átt við forystumenn allra flokka á Alþingi. „Svo er rétt að minnast þess að hér fór fram sérstök umræða í haust um gerð nýrra búvörusamninga. Sá sem hóf það mál var varaþingmaður Samfylkingarinnar,“ sagði Sigurður Ingi.
„Í Evrópusambandinu tóku menn ákvörðun um að fara út úr kvótakerfinu á 15 árum. Það er lengra en við erum að gera hér. Við erum að leggja upp með samning sem er sóknar samningur,“ sagði hann og hélt áfram: „Hér er verið að gera miklar breytingar og í lok samningstíma þessara tíu ára verður umhverfið miklu betra fyrir framtíðina," sagði ráðherrann.
Frétt mbl.is: Hættum að líta á bændur sem afætur