Markar tímamót í innanlandsflugi

Vélin er glæsileg
Vélin er glæsileg mbl.is/Árni Sæberg

Flugfélag Íslands tók í dag á móti fyrstu Bombardier Q-400 flugvélinni af þeim þremur sem skipa munu flota félagsins. Koma vélarinnar markar tímamót í innanlandsflugi en með henni er formlega hafin endurnýjun á flugflotanum. Leysa þær Fokker flugvélarnar af hólmi, en Fokker hætti framleiðslu á flugvélum fyrir 20 árum.

Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands, segir í samtali við mbl.is að félagið hafi markaðssett flugferðir sínar mjög markvisst til erlendra ferðamanna. Þá sé hlutdeild erlendra ferðamanna í innanlandsflugi að aukast.

„Hún hefur verið að vaxa töluvert. Á síðasta ári var þeirra hlutdeild um fimmtán prósent og næstu ár gerum við ráð fyrir að ná að vaxa í samræmi við fjölgun ferðamanna sem koma til landsins.“

Bombardier þóttu besti kosturinn

Eftir mikla og ítarlega skoðun var það niðurstaða Flugfélagsins að bestu flugvélarnar til að taka við af Fokker í innanlandsflugi væru Bombardier vélarnar, en félagið hefur notast við tvær Q-200 vélar fyrirtækisins í um áratug.

„Þetta er fyrsta af þremur Q-400 flugvélum sem Flugfélag Íslands tekur í notkun og við áætlum að vera komin með allar þrjár flugvélarnar í fullan rekstur í vor. Þar með lýkur 50 ára sögu Fokker hér á landi. Við erum mjög spennt fyrir nýju flugvélunum enda skapast nú allt önnur þægindi fyrir flugfarþega okkar, enda Q-400 bæði stærri, rýmri, nýrri og þægilegri en Fokker vélarnar.“

Flugvélin tók lágflug yfir flugbrautinni áður en hún lenti mínútum …
Flugvélin tók lágflug yfir flugbrautinni áður en hún lenti mínútum síðar. mbl.is/Árni Sæberg

Nýju vélarnar hljóðlátari

Q-400 flugvélarnar taka allt að 76 farþega og þær eru hljóðlátari og gefa frá sér mun minni útblástur en Fokker flugvélarnar. Eftir því var tekið af blaðamanni og þeim sem viðstaddir voru á Reykjavíkurflugvelli í dag að vélin gaf frá sér afar lítið hljóð við lendingu.

„Stærri vélar gefa okkur aukið svigrúm að bregðast við eftirspurn á álagstímum en við leggjum á það höfuðáherslu að farþegar upplifi meiri þægindi með nýrri vélum, sem útbúnar eru með þægilegum innréttingum, meira plássi, og hljóðlátari. Ekki má svo gleyma að um borð verða tveir flugþjónar svo þjónustan verður meiri en áður,“ segir Árni.

Meira framboð sæta en áður

Að því er segir í tilkynningu frá flugfélaginu verður nokkrum flugleiðum smávægilega breytt, þannig að á álagstímum, á ákveðnum dögum vikunnar og á ákveðnum tímabilum ársins verður sætaframboð mun meira en áður. Aldrei verður flogið sjaldnar en fjórum sinnum á dag til Akureyrar á virkum dögum og þrisvar á Egilsstaði.

Með tilkomu nýju flugvélanna bætist svo við nýir möguleikar.

„Q-400 flugvélarnar eru hraðfleygari en Fokker og því getum við nú flogið á áfangastaði sem eru lengra í burtu. Þannig verður nú bætt við flugi til Aberdeen í Skotlandi í samstarfi við Icelandair. Þá bætisti við nýr áfangastaður á Grænlandi, Kangerlussuaq, og verður þannig fimmti áfangastaður félagsins þar.“

Ný flugvél Flugfélags Íslands kemur til Reykjavíkur
Ný flugvél Flugfélags Íslands kemur til Reykjavíkur Árni Sæberg

Innanlandsflugið sem loftvog á efnahagslífið

Þegar horft er til framtíðar virðist útlitið bjart að sögn Árna.

„Með batnandi efnahag og meiri hagvexti þá sé ég fyrir mér aukningu í innanlandsflugi. Innanlandsflugið hefur í fleiri áratugi verið hálfgerður barómeter á efnahagslífið. Ef vel gengur þá hefur verið fjölgun farþega og þegar gengur verr þá hefur verið fækkun.

Landið er núna að rísa hægt og rólega, kaupmáttur fólks er að vaxa. Þetta tekur allt sinn tíma en við sjáum fram á heilbrigðan vöxt næstu árin.“

Jónas Jónasson flugstjóri og Valur Gunnarsson aðstoðarflugmaður.
Jónas Jónasson flugstjóri og Valur Gunnarsson aðstoðarflugmaður. mbl.is/Árni Sæberg
Árni Gunnarsson framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands, Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðarráðherra, Björgólfur …
Árni Gunnarsson framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands, Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðarráðherra, Björgólfur Jóhannsson framkvæmdastjóri Icelandair Group og Ingvar P. Guðbjörnsson, aðstoðarmaður ráðherra í vélinni. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert