„Tökum aftur upp mál Edwards Snowdens á Alþingi. Hann hefur ljóstrað upp um mál sem eiga erindi við alla heimsbyggðina. Bjóðum honum hæli á Íslandi. Verum land gagnsæis og borgaralegra réttinda, lýðræðislegra vinnubragða.“
Þetta sagði Róbert Marshall, þingmaður Bjartrar framtíðar, á Alþingi í dag. Rifjaði hann upp að þingsályktunartillaga um að veita bandaríska uppljósrraranum íslenskt ríkisfang hafi verið felld í byrjun kjörtímabilsins. Sagði Róbert sífellt væri „að koma betur og betur í ljós hvers lags þjóðþrifaverk, það má eiginlega segja alþjóðþrifaverk, það var sem Edward Snowden vann þegar hann ljóstraði upp um njósnir bandarísku þjóðaröryggisstofnunarinnar um borgara og stjórnvöld víða um heiminn.“