Vill að gerð verði óháð úttekt

Smyril siglir milli Þórshafnar og Suðureyjar þar sem búa um …
Smyril siglir milli Þórshafnar og Suðureyjar þar sem búa um 5.000 manns. Ferjan flytur allt að 975 farþega. mbl.is/Sigurður Bogi

Fá þarf óháða aðila til að taka út Landeyjahöfn og kanna hvort hægt sé að gera hana að heilsárshöfn, að sögn Halldórs Benónýs Nellett skipherra. Halldór er reyndur sjómaður og þekkir vel sjólagið við suðurströndina. Hann hefur lengi velt fyrir sér málefnum Landeyjahafnar.

Halldór segir að mikið sé rætt um sandburð og dýpi í höfninni en nánast ekkert sé minnst á sjóganginn utan hafnarinnar.

„Það siglir enginn skipstjóri í höfn og inn um hafnarmynni í veltibrimi þó dýpið sé í lagi,“ sagði Halldór.

Hann telur að ný ferja breyti engu verði Landeyjahöfn ekki lagfærð. Staðan verði enn verri en hún er í dag ef sú ferja sem nú er verið að hanna þarf að sigla til Þorlákshafnar í slæmum vetrarveðrum. Halldór telur að það sé ekki hægt að hanna skip til að annast bæði siglingar í Landeyjahöfn og Þorlákshöfn af því öryggi og með þeim þægindum sem fólk krefst í dag.

„Hönnunin kemur alltaf niður á annarri hvorri höfninni. Ef ferjan verður of stór kemst hún ekki inn í Landeyjahöfn. Ef hún verður of lítil kemur það niður á siglingum til Þorlákshafnar,“ sagði Halldór. Leiði óháð skoðun það í ljós að hægt sé að laga Landeyjahöfn þannig að hún verði heilsárshöfn á að halda áfram með hönnun ferju fyrir þá höfn, að mati Halldórs. Ef hins vegar er ekki hægt að laga höfnina þá verður að kaupa eða smíða gangmikla ferju sem getur siglt milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar yfir vetrarmánuðina.

„Siglingatíminn má alls ekki vera lengri en tvær klukkustundir. Með því móti væri hægt að bjóða upp á 2-3 ferðir á dag,“ sagði Halldór.

„Færeyingar halda uppi siglingum milli Þórshafnar og Suðureyjar. Það er mjög svipuð vegalengd og á milli Þorlákshafnar og Vestmannaeyja. Ferðatíminn er tvær klukkustundir með ferju sem heitir Smyril. Ganghraði hennar er 21 sjómíla á klukkustund. Smyril tekur allt að 975 farþega og 200 bíla. Um 5.000 manns búa á Suðurey. Ferjan er alls 135 metra löng. Þeir voru með minni ferju sem var einfaldlega talin of lítil miðað við sjólagið.“ 

100 metra ferja lágmark

Halldór kvaðst telja að ferja sem sigla á milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar að vetrinum þurfi að lágmarki að vera um 100 metra löng með tilliti til sjólags og ganghraða.

„Það er einfaldlega ekki hægt að bjóða farþegum upp á að sigla á minni skipum þarna á milli í þeim veðrum sem geisa þarna ansi oft yfir vetrartímann,“ sagði Halldór. Hann sagði að með jafn gangmikilli ferju og Smyril er gætu ferðamenn farið á milli Þorlákshafnar og Vestmannaeyja að morgni og komið aftur að kvöldi. Síðan væri hægt að bjóða upp á siglingar í Landeyjahöfn með minni ferju yfir sumarið.

Hér sést hugmynd Halldórs B. Nellett að breytingu hafnargarðanna
Hér sést hugmynd Halldórs B. Nellett að breytingu hafnargarðanna Tölvugerð mynd/Viggó Sigurðsson/Guðmundur St. Valdimarsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert