„Þetta eru fyrstu tilburðir á Alþingi um árabil til að stemma stigu við kennitöluflakki, þrátt fyrir að sá mikil samfélagslegi skaði sem kennitöluflakkið veldur sé löngu þekktur. En kennitöluflakkið þýðir milljarða tap fyrir sameiginlega sjóði landsmanna, auk þess skaða sem það veldur einstaklingum og atvinnulífinu öllu.“
Þetta kemur fram á vefsíðu Alþýðusambands Íslands í dag þar sem fjallað er um frumvarp sem lagt hefur verið fram á Alþingi með það fyrir augum að stemma stigum við kennitöluflakki. Gagnrýna megi þó að ekki sé gengið lengra og lagðar til frekari aðgerðir í þessum efnum. Framtakinu beri engu að síður að fagna.
Frétt mbl.is: Vilja sporna við kennitöluflakki
Hins vegar er Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra sökuð um að hafa ekki aðeins „látið hjá líða að gera nokkuð til að sporna við þeirri samfélagslegu meinsemd sem kennitöluflakkið er heldur hreinlega lagst gegn öllum hugmyndum í þeim efnum.“ Haft er eftir henni úr fjölmiðlum að hún sé efins um að frumvarpið skili tilætluðum árangri og gæti ennfremur komið sér illa fyrir nýsköpunarfyrirtæki.
„Gera verður kröfu til þess að ráðherrann skýri hvað hún á við, en í greinargerð ASÍ kemur m.a. fram að allmargir einstaklingar hafi á fáum árum sett 10 fyrirtæki eða fleiri í þrot með stórkostlegum skaða fyrir samfélagið. Þar af setti sami einstaklingur 29 fyrirtæki í þrot og fékk að hald áfram óáreittur. Er það nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi að skapi ráðherrans?“