„Ég vil meina að þetta sé brot því það er búið að senda hafnarverkamennina heim sem hafa séð um losun og lestun og hér eru yfirmenn að ganga í störf verkamannanna. Þannig að ég tel þetta vera bara verkfallsbrot,“ segir Kolbeinn Gunnarsson, formaður verkalýðsfélagsins Hlífar í Hafnarfirði, í samtali við mbl.is en hann er staddur á höfninni við álverið í Straumsvík þar sem verið er að flytja ál um borð í flutningaskip. Verkfall hófst á miðnætti sem nær til útflutnings á áli frá álverinu. Aðspurður segir hann ekki hafa komið til alvarlegra árekstra á milli manna.
„Við erum náttúrulega bara að reyna að ganga hér á milli en þeir eru byrjaðir að flytja álið út á bryggjuna til að setja um borð í skipið. Við verðum bara að standa vaktina hérna og fylgjast með því,“ segir Kolbeinn. Spurður hvort verkalýðsfélagið muni grípa til einhverra aðgerða segir hann: „Við munum sjálfsagt reyna að óska eftir því að menn séu ekki að setja álið um borð og tryggja að hér verði ekki slys á mönnum. En þetta er náttúrulega úr takti við allt í samfélaginu og sýnir kannski hver hugsunin er hjá Rio Tinto. Þá segja að verið sé að brjóta niður verkalýðshreyfinguna eins og vakir fyrir þeim.“
Fundað verður í kjaradeilu starfsmanna álversins í Straumsvík hjá ríkissáttasemja klukkan 13:00 í dag en Kolbeinn segir engin viðbrögð hafa komið frá Rio Tinto frá því að verkfallið hófst. Tekist hafði verið á um það hvort verkfallið væri löglega boðað en félagsdómur úrskurðaði í gær að svo hafi verið. „Við erum auðvitað alfarið á móti því að þeir séu að setja álið um borð. Það var náttúrulega samþykkt í félagsdómi í gær að verkfallið væri löglega boðað og þar af leiðandi eiga ekki aðrir að ganga í störf þeirra manna sem eru í verkfalli.“
Kolbeinn segir að þeir einu sem geti hugsanlega gengið í störf séu forstjóri og aðrir æðstu stjórnendur fyrirtækisins en miklu fleiri séu að gera það nú en þeir. „Þeir eru komnir með svona 15-20 manna hóp sem er að ganga í störf. Þetta eru ýmsir stjórnendur fyrirtækisins.“ Þar á meðal séu verkstjórar. Verkfallið nái aðeins til útflutnings á áli og ekkert sé því til fyrirstöðu að framleiðsla haldi áfram en starfsmenn sem sinnt hafi henni hafi hins vegar verið sendir þeim. „Það er svolítið skrítið að búið sé að senda starfsmenn heim sem hefðu getað sinnt þeim störfum.“