Mörgum finnst það líklega ærið afrek að ganga á jökul um hávetur á tveimur jafnfljótum. Líklega má þó fullyrða að afrekið sé enn meira þegar fjallgöngumaðurinn þarf að styðja sig við hækjur dagsdaglega, eins og írska fjallgöngu- og baráttukonan Nikki Bradley sem hyggst ganga á Sólheimajökul núna um helgina.
Nikki er væntanleg hingað á morgun með fylgdarliði sínu, m.a. kvikmyndatökumönnum sem vinna að heimildarmynd um hana. Tilgangurinn er annars vegar að ganga á jökulinn og njóta íslenskrar náttúrufegurðar. Hins vegar vill hún sýna fram á mikilvægi hreyfingar fyrir endurhæfingu sjúklinga.
Þetta er síður en svo fyrsta fjallganga Nikki, t.d. kleif hún Errigal-fjall, hæsta fjall Írlands, fyrir skömmu og nýverið seig hún niður veggi Fanad-vita, sem er eitt helsta kennileiti Írlands.
Árið 2002, þegar hún var 16 ára, var hún greind með sjaldgæft beinkrabbamein, Ewing's sarkmein. Geislameðferðir hafa haft þær aukaverkanir að hún er með lausa mjaðmaliði og læknar hafa sagt að líklega þurfi að fjarlægja hægri fótlegg hennar innan tíðar vegna sjúkdómsins. Þá er hún bæði með tauga- og vöðvaskemmdir vegna sjúkdómsins.
Árið 2013 var Nikki sagt að hún yrði að ganga við hækjur það sem eftir væri. „Ég ákvað að finna jákvæðan flöt á því og hóf fljótlega vitundarvakninguna Fighting Fit For Ewing's þar sem ég legg áherslu á líkamsrækt og hreyfingu.“
Hækjurnar sem Nikki mun styðja sig við á leiðinni upp á jökulinn eru engar venjulegar hækjur.
„Þær eru sérhannaðar fyrir fólk sem hreyfir sig mikið. Þær eru mjög léttar og þeim fylgja ýmsir aukahlutir eins og t.d. ísbroddar og nokkurs konar litlir fjallgönguskór sem eru festir neðan á hækjurnar,“ svarar Nikki, spurð hvernig farið sé upp á jökul á hækjum.
Hvers vegna varð Ísland fyrir valinu? „Ég átti fund með ljósmyndara vegna myndatöku fyrir vefsíðuna mína, hann hafði nýlega verið á Íslandi og sagði mér frá landinu, sem hann átti ekki nægilega sterk orð til að lýsa. Í lok fundarins var ég búin að ákveða Íslandsferð,“ segir Nikki. Í kjölfarið hafði hún og fylgdarlið hennar samband við íslenska leiðsögumenn og ferðaskipuleggjendur, sem munu verða þeim innan handar í göngunni.
Nikki segist meðvituð um að allra veðra sé von hér á landi á þessum árstíma og segist hafa raunhæfar væntingar. „Ég vil að þetta verði áskorun en á sama tíma geng ég á eins öruggan hátt og mögulegt er. Ég verð að játa að ég er svolítið spennt og ef þetta tekst, þá hefur einn af draumum mínum ræst. Ég veit að ég mun geta litið stolt til baka. Ég vona líka að þetta verði öðrum hvatning; en ég held að það sé ekki hægt að hvetja fólk til að gera eitthvað ef maður er ekki tilbúinn til að gera það sjálfur.“