Engar hvalveiðar verða á vegum Hvals hf. næsta sumar. Kristján Loftsson, framkvæmdastjóri Hvals, staðfestir þetta í samtali í Morgunblaðinu í dag. Hann segir fyrirtækið hafa mætt endalausum hindrunum við að koma hvalaafurðum á markað í Japan.
Hann segir hindranirnar meðal annars felast í síendurteknum efnagreiningum þar sem Japanir beiti yfir 40 ára gömlum aðferðum sem hvergi séu notaðar annars staðar í heiminum. Þetta geri þeir þrátt fyrir að efnagreiningarvottorð fylgi afurðunum.
„Ef Japanir taka ekki upp nútímalegar rannsóknaraðferðir eins og notaðar eru hér á landi, þannig að sambærilegum aðferðum sé beitt í báðum löndum, mun Hvalur ekki lengur geta stundað hvalveiðar fyrir Japansmarkað. Japan er okkar aðalmarkaður og þess vegna er þessu sjálfhætt,“ segir Kristján í blaðinu